Fjallamennska 1 árið 2012

Fjallamennska 1 var haldin þetta árið á Fimmvörðuhálsi. Þriðjudaginn 13. nóvember mættu nýliðarnir á undirbúningskvöld á M6 þar sem farið var yfir helstu efnisatriði og rennt yfir búnaðarlistann, hnútar kenndir, sig æft og lánsbúnaði útdeilt.

Að kvöldi föstudagsins 16. var svo haldið austur að Skógum og upp slóðann á Fimmvörðuháls. Færið var nokkuð þungt en Eiríkur Odds náði þó að koma Ásnum um tveimur kílómetrum að vaðinu þegar ákveðið var að halda áfram fótgangandi. Þaðan var svo þrammað í nöprum norðankalda og hressilegum skafrenningi upp að nýja Baldvinsskála þar sem gist var um nóttina.

Morguninn eftir var spáð allhvössum vindi sunnan við Hálsinn og því var ákveðið að halda norðuryfir, reyna að fara yfir helstu atriði námskeiðsins á leiðinni og ná niður í Bása um kvöldið. Veður lægði eilítið eftir morgunmat en batnaði mjög þegar yfir hálsinn var komið og Tindfjallajökull og Mörkin blöstu við í allri sinni dýrð. Sunnudagsmorguninn héldu hóparnir upp að Réttarfelli og hlíðunum ofan Bása í mikilli veðurblíðu til að fara yfir þau efnisatriði sem ekki náðist að klára daginn áður. Þrátt fyrir heldur lítinn og lausan snjó fengu nýliðarnir nasaþefinn af þessum helstu atriðum fjallamennsku.

Námskeiðið varð því að öllu meiri fjallamennskuferð en gert hafði ráð fyrir og stóðst hópurinn þetta verkefni með prýði.

—————-
Höfundur: Martin Swift