Gjafakort fyrir flugelda

Við hjá Hjálparsveit skáta í Reykjavík viljum benda á gjafakort fyrir flugelda sem góða jólagjöf fyrir starfsfólk, hvort sem er aðalgjöf eða veglega viðbót við jólapakkann. Einnig hefur sú hefð verið að skapast á undanförnum árum að fyrirtæki gefi starfsfólki sérstakan nýársglaðning í formi gjafakorta fyrir flugelda á milli jóla og nýs árs. Gjafakortin bjóðast í mismunandi fjárhæðum frá 5-25 þúsund krónur, en einfalt er að sníða þær upphæðir að þörfum hvers og eins, sé þess óskað.

Flugeldasalan er stærsta einstaka fjáröflunarleið björgunarsveitanna og því njóta allir góðs af þegar flugeldar eru gefnir. Þess má geta að á síðastliðnu ári var Hjálparsveit skáta í Reykjavík boðuð út 33 sinnum í hin margvíslegustu verkefni. Samtals tóku 99 björgunarmenn þátt í þessum útköllum og vörðu til þeirra rúmlega 2.500 klukkustundum eða sem nemur tæplega 320 vinnudögum í sjálfboðavinnu. En til þess að þetta sjálfboðaliðastarf geti þrifist og dafnað þarf að fjármagna kaup og rekstur á hvers konar sérhæfðum tækjabúnaði og þar vegur sala flugelda þungt.

Flugeldarnir hafa fylgt þjóðinni um áraraðir og vilja flestir halda vel í þessa gömlu og góðu hefð. Því er gjafakort frá hjálparsveitinni kærkominn glaðningur í jólapakkanum frá fyrirtækinu sem hjálpar til við að fjármagna þetta starf hjálparsveitanna sem sannað hefur gildi sitt ótal sinnum í gegnum tíðina.

Hikaðu ekki við að hafa samband við Eddu Þórsdóttur í síma 841-3040 eða netfangið flugeldar@hssr.is vanti þig frekari upplýsingar.

Pöntunarform