Hópferð á björgunarráðstefnu í New Jersey í Bandaríkjunum.

Björgunarskóli SL stóð fyrir hópferð á sameiginlega ráðstefnu MRA (Mountain Rescue Association) og NASAR (National Associaton for Search and Rescue) sem haldin var í New Jersey í Bandaríkjunum dagana 5.-7. júní sl.
Fyrir tveimur árum síðan skipulagði SL hópferð á WASAR ráðstefnuna í Washington fylki Bandaríkjanna og skemmst er frá því að segja að færri komust að en vildu og ferðalangar voru almennt mjög ánægðir með ferðina. Þess vegna var ákveðið að slá saman í aðra ferð. Í þetta skiptið var stefnan tekin á New Jersey á austurströnd Bandaríkjanna. Ráðstefnan fór fram í bæ sem heitir Woodcliff Lake í New Jersey en bærinn er í um það bil 5o mínútna fjarlægð frá Manhattan eyju New York borgar.

Þátttakendur frá Íslandi voru alls 34, frá björgunarsveitum víðs vegar að frá landinu.
Fimm björgunarmenn frá HSSR tóku þátt að þessu sinni. 

Þetta er í annað skipti sem að NASAR og MRA halda sameiginlega ráðstefnu en björgunarmenn frá Íslandi hafa oft sótt ráðstefnu NASAR í gegnum tíðina enda góð og umfangsmikil ráðstefna. Dagana fyrir ráðstefnuna voru einnig haldin námskeið fyrir þá sem höfðu áhuga á þeim.
Tóku flestir íslensku þátttakendurnir þátt í 1-2 heildagsnámskeiðum fyrir sjálfa ráðstefnuna og var m.a. stór hópur sem sat 8 tíma námskeið í Urban Search Management eða Aðgerðarstjórnun í innanbæjarleit.

Á sjálfri ráðstefnunni voru ýmsir 1 – 2 klst. fyrirlestrar í boði.
Sem dæmi má nefna; sporrakningar, fjallabjörgun, línuvinna, slysaförðun, leitartækni, aðgerðarstjórnun, snjóflóðahætta, samskipti við aðstandendur, fyrstu viðbrög í leit og björgun, viðtalstækni fyrir björgunarmenn/aðgerðarstjórnendur og svona mætti lengi telja.

Var það samdóma álit flestra þátttekenda að ráðstefnan hefði verið í alla staði mjög lærdómsrík og að  íslenskir björgunarmenn ættu fullt erindi á slíka viðburði erlendis.

Hópurinn samankominn fyrir framan hótelið 🙂
NASAR 2014