Styrkur frá ISAVIA móttekinn

Isavia styrkir hjálparsveitir

Styrkur frá ISAVIA móttekinn

Félagar í HSSR taka á móti styrk frá ISAVIA.

Á nýliðnu ári veitti stjórn ISAVIA nokkrum hjálparsveitum fjárstyrk til að efla viðbragð sveitanna í hópslysum, þar á meðal í flugslysum. Síðastliðinn föstudag bauð ISAVIA þremur sveitum af höfuðborgarsvæðinu í móttöku þar sem fjárveitingin og tilgangur hennar var kynnt.

Hjálparsveit skáta nýtti styrkinn til kaupa á fjórum stórum töskum til að sameina allan neyðarbúnað sveitarinnar á einn stað í hverju farartæki. Jafnframt var innihald þeirra endurnýjað og er þar nú að finna m.a. bráðaflokkunartösku, nýja súrefniskúta, blóðþrýstingsmæla, reykbombur og neyðarblys og fjölmargt fleira, sjá einnig frétt frá maí 2012. Töskurnar eru handhægar og má með örfáum handtökum breyta þeim í bakpoka. Auðvelt er að grípa sjúkrabúnaðinn með sér, að hluta eða í heild. Einnig sýndi sveitin áfyllingartöskur sem voru keyptar. Þar er á einum stað búnaður til að fylla á sjúkratöskur björgunarmanna en hratt getur gengið á birgðir í litlum sjúkratöskum þeirra ef sinna þarf mörgum slösuðum.

Á kynningunni sýndi Björgunarsveitin Kjölur handhægar og léttar, stillanlegar sjúkrabörur og Björgunarsveit Hafnarfjarðar sýndi á sterkar og góðar sjúkrabörur ásamt viðeigandi búnaði, m.a. blöðruteppi.

Styrktarsjóður ISAVIA var stofnaður árið 2011. Úthlutað er árlega og árið 2012 nam úthlutun 12 milljónum króna til 18 björgunarsveita um land allt. Árið 2011 var 1,4 milljónum úthlutað og stefnt er að átta milljóna króna úthlutun á þessu ári. Allt í allt er þetta því 21 milljón. Tilgangur sjóðsins er að efla hópslysaviðbúnað björgunarsveita Slysavarnarfélagsins Landsbjargar. Sérstök áhersla er lögð á að styrkja sveitir nærri áætlunarflugvöllum ISAVIA til kaupa á tækjum og búnaði eða til menntunar. Þá er það hagur Íslendinga og ferðamanna að björgunarsveitir landsins séu sem best búnar. Björgunarsveitirnar gegna lykilhlutverki í flugslysaáætlunum og hópslysaviðbúnaði landsins.