Nýliðastarf

Í HSSR er keyrt öflugt nýliðastarf sem hefst í byrjun september ár hvert. Kynningarfundur er yfirleitt haldinn fyrstu þriðjudag í september þar sem áhugasömum gefst tækifæri á að sjá þjálfunaráætlun nýliða, kynnast starfi sveitarinnar, skoða aðstöðu og tæki ásamt því að grípa í höndina á félögum og spyrja spurninga.

11

Smelltu hér til þess að skoða kynningarbækling um nýliðastarfið 2017-19.

Smelltu hér ef þú vilt fá tölvupóst haustið 2017 þegar nýliðaþjálfun fer næst af stað. Næsta kynning verður á dagskrá 5. september 2017.

Smelltu hér ef þú vilt sækja um pláss í nýliðaþjálfun HSSR.

Fyrir flesta nýliða tekur þjálfun 18 mánuði. Á þeim tíma kynnast væntanlegir félagar því hvað fylgir því að starfa í björgunarsveit og fara á námskeið til þess að styrkja þá í væntanlegu starfi þeirra í sveitinni. Fyrra árið þjálfar fólk sem nýliðar 1, en færast upp í nýliða 2 síðasta hálfa árið ef öll áskilin námskeið hafa verið kláruð.

IMG_6748-2

Á fyrra ári (12 mánuðir) er lögð áhersla á að nýliðar öðlist þann þekkingargrunn sem nauðsynlegur er svo þeir geti tekist á við störf björgunarsveitarmanns/konu sem snúast fyrst og fremst í kringum það að taka þátt í útköllum. Námskeið sem eru kennd á þessu ári eru meðal annarra:

  • Ferðamennska og rötun
  • Leitartækni
  • Fyrsta hjálp (tvö námskeið)
  • Ferðast á jökli
  • Grunnatriði í snjóflóðum
  • Fjallamennska
  • Björgun við sjó og vötn

Auk þess er farið í fjölda ferða; tjaldferðir í vetraraðstæðum, gönguskíðaferð og fleira.

Á seinna ári (u.þ.b. 7 mánuðir) er lögð á áhersla á að væntanlegir félagar fái tækifæri til þess að sérhæfa sig á þeim sviðum sem þeir hafa sérstakan áhuga á. Geta þeir þar valið um námskeið í fjallamennsku, ísklifri, fyrstu hjálp, óveðursaðstoð og mörgu öðru.

Áfram er farið út fyrir borgarmörkin og ferðast.

ER1_8104

Flestir félagar ganga inn í sveitina 18 mánuðum eftir að þeir hefja nýliðaþjálfun sína. Fullgilding nýliða er háð því að nýliðar taki ákveðin grunnnámskeið sem allir þurfa að fara í gegnum ásamt því að hafa mætt í þær ferðir sem til er ætlast og sýnt virkni í starfi.

Starf HSSR, sem og allra annarra björgunarsveita hérlendis, er háð fjáröflunum. Rík áhersla er því lögð á að væntanlegir félagar í sveitinni taki þátt í því starfi og kynnist mismunandi fjáröflunum. Á síðustu árum hefur HSSR meðal annars selt flugelda, sinnt viðhaldi á gönguleiðum á Hengilssvæðinu, sinnt gæslu á fótboltaleikjum fyrir KSÍ, sett saman og skotið upp flugeldasýningum o.fl.

Nýliðar 2014 á leitaræfingu

Umsjón með nýliðum 1 tímabilið 2016-18
Ragnildur Kr. Einarsdóttir
Sigríður Guðmundsdóttir
Þór Blöndahl Arngrímsson

Umsjón með nýliðum 2 veturinn 2016-17
Kormákur Hlini Hermannsson
Stefán Baldur Árnason