Nýliðastarf

Í HSSR er boðið upp á öfluga nýliðaþjálfun sem hefst í byrjun september ár hvert. Dagskráin er kynnt á opnum fundi þar sem áhugasömum gefst tækifæri á að sjá þjálfunaráætlun nýliða, kynnast starfi sveitarinnar, skoða aðstöðuna og tækin ásamt því að grípa í höndina á félögum og spyrja spurninga.

Fjallamennska í HSSR

Fyrir flesta nýliða tekur þjálfun 20 mánuði. Á þeim tíma kynnast væntanlegir félagar því hvað fylgir því að starfa í björgunarsveit og fara á námskeið til þess að styrkja þá í væntanlegu starfi þeirra í sveitinni. Fyrra árið þjálfar fólk sem nýliðar 1, en færast upp í nýliða 2 seinna tímabilið ef öll áskilin námskeið hafa verið kláruð. Þátttakendur þurfa að vera afar vel á sig komnir líkamlega og andlega, reiðubúnir að takast á við fjölbreytileg og erfið verkefni og tilbúnir til þess að sýna frumkvæði og styrk.

Smelltu hér til þess að skoða kynningarbækling um nýliðastarfið síðastliðið starfsár.

Smelltu hér til að kalla fram umsókn um þjálfun sem nýliði í HSSR.

IMG_6748-2

Á fyrra ári (12 mánuðir) er lögð áhersla á að nýliðar öðlist þann þekkingargrunn sem nauðsynlegur er svo þeir geti tekist á við störf björgunarsveitarmanns/konu sem snúast fyrst og fremst í kringum það að taka þátt í útköllum. Námskeið sem eru kennd á þessu ári eru meðal annarra:

  • Ferðamennska og rötun
  • Fyrsta hjálp (tvö námskeið)
  • Ferðast á jökli
  • Grunnatriði í snjóflóðum
  • Fjallamennska
  • Björgun við sjó og vötn

Auk þess er farið í fjölda ferða; tjaldferðir í vetraraðstæðum, gönguskíðaferð og fleira.

Á seinna ári (u.þ.b. 8 mánuðir) er lögð á áhersla á að væntanlegir félagar fái tækifæri til þess að sérhæfa sig á þeim sviðum sem þeir hafa sérstakan áhuga á. Geta þeir þar valið um námskeið í fjallamennsku, ísklifri, fyrstu hjálp, óveðursaðstoð og mörgu öðru.

Áfram er farið út fyrir borgarmörkin og ferðast.

ER1_8104

Flestir félagar ganga inn í sveitina 20 mánuðum eftir að þeir hefja nýliðaþjálfun sína. Fullgilding nýliða er háð því að nýliðar taki ákveðin grunnnámskeið sem allir þurfa að fara í gegnum ásamt því að hafa mætt í þær ferðir sem til er ætlast og sýnt virkni í starfi.

Starf HSSR, sem og allra annarra björgunarsveita hérlendis, er háð fjáröflunum. Rík áhersla er því lögð á að væntanlegir félagar í sveitinni taki þátt í því starfi og kynnist mismunandi fjáröflunum. Á síðustu árum hefur HSSR meðal annars selt flugelda, selt Neyðarkall, sinnt viðhaldi á gönguleiðum á Hengilssvæðinu, sinnt gæslu á fótboltaleikjum fyrir KSÍ, sett saman og skotið upp flugeldasýningum o.fl.

Hafir þú spurningar sem ekki er svarað hér getur þú sent okkur póst á hssr@hssr.is.

Nýliðar 2014 á leitaræfingu

Umsjón með nýliðum 1
Ólafur Jón Jónsson
Tómas Gíslason
Ragnar Antoniussen

Umsjón með nýliðum 2
Stjórn HSSR