Öræfajökull helgina 9. – 11. maí sl.

Á föstudagseftirmiðdegi lagði lítill hópur frá M6 austur á land með stefnu á Skaftafell. Umtalsverð afföll höfðu orðið vegna veikinda þessa síðustu daga fyrir brottför, en hópurinn varð bara einbeittari í ferðagleðinni fyrir vikið. Spár voru ágætar en höfðu samt verið nokkuð á flakki síðustu daga, og þó svo að Belgingur væri farinn að spá einmuna blíðu á sunnudaginn um það leyti sem við komum austur var ákveðið að halda striki og leggja í‘ann þá um nóttina.
Á leiðinni austur hittum við góða félaga, en þeir Örvar, Ævar, Höskuldur og Pétur voru einmitt á leið austur að stýra FÍ ferð á Hrútfellstinda, og höfðu sömu ferðaáætlanir og við.
Við komum síðla í Skaftafell, reistum tjöld, fengum okkur bita og lögðum okkur í einn og hálfan tíma. Þá var ræst í göngu. Lagt var uppfrá Sandfelli rétt uppúr eitt um nóttina. Veður var milt og stillt framanaf og er birti af degi, um það bil sem við vorum komin í línu, var fjallasýnin hreint yndisleg.
0118370367e9252b8da88ecdc8b2ce4e723712ae85

Brekkugöngutangó

Færið var eilítið blautt neðst í brekkunni en fljótlega tók við nokkuð velfrosin fokskel sem hélt flestum, nema fyrsta og síðasta manni sem ávallt stigu niðurúr þekjunni. Var göngulínan því nokkuð sérkennileg álengdar þar sem öll línan gekk svo sem meter til hliðar af nýsporaðri gönguleið, markeraðri af fremsta manni, og tiplaði þar eftir óbrotinni fönninni svo varla markaði fyrir.
Blessunarlega styrktist skelin þegar ofar dró svo það fengu allir að skauta á yfirborðinu, en samhliða kólnaði eilítið og tók að hreyfa vind. Fljótlega eftir að við náðum að sjá takmarkinu bregða fyrir, þar sem Hnjúkinn bar við heiðan, bláan himinn, byrjaði að mugga og skýjaslæður lögðust yfir okkur í síðustu brekkunni uppá skálarbarm.

Skálarskán

Sjálf skálin var ekki svo erfið yfirferðar þó eitthvað væri aftur stigið niður úr snjónum. Skyggnið varð reyndar sífellt minna en svo bar við að við sáum tjöld álengdar norðan við uppstigið sem við ákváðum að kanna betur, svona til öryggis. Er við komum nær var ljóst að þarna voru vel uppsettar búðir skíðamanna og okkur datt í hug að þarna gætu Flubbar verið á ferð. Við sannreyndum það reyndar ekki, heldur ákváðum að halda beinustu leið og sjá hvort við kæmumst a.m.k. ekki uppfyrir þann punkt þar sem snúið var við í fyrra, því er hér var komið var sögu var farið að blása nokkuð hressilega og skyggnið dottið niður í nokkur hundruð metra.
Við höfðum haft af því spurnir að vikuna áður hefðu allar sprungur verið vel fylltar og harðfenni yfir öllu.  Við vonuðum að það væri enn færið, skelltum okkur á broddana og héldum á brattann. Greinilegt var að eitthvað hafði tekið upp af snjónum því sprungur voru hálffylltar en markaði samt ágætlega fyrir þeim. Töluvert frauð var líka í yfirborðinu.
0122d8b5a3a63697b20dec15d2841ad799ac24e392015734738e20c997690a83c225808d2d4856c044a1

15 metrar (bæði skyggni og blástur)

Fyrsta kastið gekk nokkuð vel en er ofar dró, brattinn jókst á sama sama tíma og skyggnið minnkaði og bætti í vindinn, var eiginlega útséð um þessa ferð. Þegar kom loks að því að skáskera eina brekkuna í um 15m/s vindi, í 10-15 metra skyggni, var komið að því að taka ákvörðun og snúa við.
Voru allir afar sáttir við þá ákvörðun, og þó enginn hafi enn verið orðinn eitthvað mikið þreyttur á sinni, þá létti yfir mannskapnum sem gladdist verðskuldað yfir að hafa náð þetta langt við afar krefjandi aðstæður. Veitti ekkert af þessu góða skapi næsta hálftímann þegar við reyndum að þræða okkur niður til baka. Tóku GPS tækin uppá undarlegum uppátækjum (sem skilaði að lokum hæsta punkti 2237m! úr einni slóðinni), sem  truflaði okkur aðeins en ekki meira en svo að heil á höldnu komumst við niður í skálina aftur, sem var eins gott því við misstum Birnu einu sinni hálfa niður í myndarlega sprungu sem var aðeins hulin fremur þunnri skel.
Leiðin niður var svo lítt eftirminnileg, eins og svo oft; stigin algerri hvítu og sí-blautari snjó. Það var samt enn glaður og sprækur hópur sem skilaði sér í bíl, sumir eftir eilítinn auka útsýnishring um Sandfellið.01505af40bc88d8e2d6a715cd8099571346bde0464

Á sama tíma að  ári

Við fórum flest snemma í bælið, eftir yndislega grillveislu, og sum hver strax farin að skipuleggja næsta könnunarleiðangur að ári: Verður áherslan þá færð af Öræfajökli á Hvannadalshnjúkinn sjálfan, sem hefur verið látinn liggja milli hluta hingað til.

Stefán Baldur Árnason

E.s. Leiðangursmenn þakka Kristni sérstakleg fyrir Mary-Poppins atriðið í tjaldbúðunum. Það mun lifa lengi með okkur.