Author Archives: Hjálparsveit skáta í Reykjavík

Sveitarforingjaskipti á aðalfundi

Aðalfundur HSSR var haldinn 11. nóvember síðastliðinn. Fór hann fram með hefðbundnu sniði þar sem gerð var grein fyrir starfinu á liðnu starfsári, fjármálum sveitarinnar auk þess sem rætt var um lög, dagskrá og útkallsmál.

Stóru tíðindi fundarins voru hins vegar þau að Haukur Harðarson, sveitarforingi til níu ára, var ekki lengur í framboði og þurfti fundurinn því að velja nýjan sveitarforingja. Aðeins einn bauð sig fram, Tómas Gíslason, og var hann því sjálfkjörinn nýr sveitarforingi til eins árs. Úr stjórn gengu einnig Þorbjörg Hólmgeirsdóttir, Daníel Másson, Sigþóra Ósk Þórhallsdóttir og Einar Ragnar Sigurðsson.

Ný stjórn er þannig skipuð:

Tómas Gíslason, sveitarforingi
Edda Guðrún Guðnadóttir
Halldór Ingi Ingimarsson
Hilmar Bergmann
Melkorka Jónsdóttir
Ólafur Jón Jónsson
Rún Knútsdóttir

Fráfarandi stjórn fær þakkir sveitarinnar fyrir vel unnin störf um leið og þeirri nýju er óskað velfarnaðar í þeim verkefnum sem fyrir höndum eru á komandi misserum.

Gengið á jökli 2014

Fjallahópur fór með Nýliðum 1 í göngu á Sólheimajökli nú á sunnudaginn var. Jökullinn er enn nokkuð sprunginn um sporðinn og því var gengið nokkuð upp með honum og út á hann ofar en vanalega er farið.
10750116_10152927519564954_8466339029635747756_oVeðrið lék við hópinn sem fékk þennan líka prýðisdag á jökli. Haldið var inn á jökulinn miðjan þar sem hann er sæmilega flatur. Þaðan var haldið yfir grófara landalag og farið yfir ýmsa tækni við broddagöngu.

Hádegismaturinn var tekinn niðri við íshellana sem þó voru að syngja sitt síðasta og þaðan haldið heim á leið. Þó var tekið stutt stopp nærri jökulröndinni þar sem myndarlegar sprungur kölluðu á göngufólk. Þar var skellt upp tveimur línum og allir fengu að prufa að skrúfa ísskrúfu, síga og klifra.

Continue reading

Það fjölgar í Hjálparsveitinni

Núna í haust hafa tveir nýir fullgildir félagar bæst við í HSSR.  Fyrst var það Sólveig Sveinbjörnsdóttir sem kemur frá björgunarsveitinni í Hornafirði og var búin að vera með gestaaðild frá því síðasta vetur og verið á útkallsskrá síðan þá.   Grétar Ingvi Grétarsson sem er úr nýliðahópnum sem hóf þjálfun haustið 2012 hefur lokið nýliðaþjálfuninni og skrifaði undir eiðstaf sveitarinnar því til staðfestingar.  Þau eru núna bæði orðin fullgildir félagar í Hjálparsveit Skáta í Reykjavík.

Sólveig Sveinbjörnsdóttir gengur inn í Hjálparsveitina

Sólveig Sveinbjörnsdóttir gengur inn í Hjálparsveitina

Grétar Ingvi Grétarsson gengur inn í Hjálparsveitina

Grétar Ingvi Grétarsson gengur inn í Hjálparsveitina

Nýliðar 1 á leitartækninámskeiði

Það var áhugasamur hópur nýliða sem mætti á leitartækninámskeið um síðastliðna helgi.
Bókleg kennsla fór fram á Malarhöfða 6 en útiæfingar í Elliða – og Úlfarsárdal. Voru það félagar úr Leitartæknihóp HSSR sem héldu utan um alla kennslu og skipulag.
Kennd voru undirstöðuatriði leitartækninnar; hraðleit, regndansinn, svæðisleit, sporaleit m.m.

Framtíðin er björt hjá HSSR  – Nýliðar 1 🙂
10714265_10205449663067513_3557425581813582235_o

 

Stofnfundur Vina HSSR

Stofnfundur Vina HSSR var haldinn17. september sl.
Í ávarpi sveitaforingja HSSR Hauks Harðarsonar kom m.a. fram að stjórn sveitarinnar ákvað að koma á laggirnar undirbúningsnefnd um stofnun hollvinasamtaka.
Nefndin tók til starfa vorið 2013. Í henni hafa setið: Benedikt Þ Gröndal formaður, Eggert Lárusson og Laufey E Gissuradóttir.
Í fyrstu tók nefndin mið að því að ná til félaga sem höfðu undirskrifað eiðstaf sveitarinnar eftir endurreisn hennar árið 1962. Hugmyndin  væri síðan að ná til félaga fyrir þann tíma síðar. Tilgangurinn með stofnun samtakanna væri fyrst og fremst að ná til þeirra sem vilja starfa með sveitinni og að þeir sem komi til starfa geti valið sér vettvang til að vinna að.

Að loknu máli formanns undirbúningsnefndar kallaði fundarstjóri fram fyrstu stjórn samtakanna sem skipuð er af stjórn HSSR,  í henni eiga sæti: Thor B. Eggertsson formaður, Laufey E Gissuradóttir ritari. Meðstjórnendur eru:  Eggert Lárusson, María Haraldsdóttir og Ævar Aðalsteinsson.

Að því loknu lýsti fundarstjóri  yfir stofnun  Vina HSSR – Hollvinasamtaka HSSR við dynjandi lófatak fundarmanna.

Þess má geta að nær allir fundarmenn skráðursig á félagalista Vina HSSR en á fundinn mættu tæplega hundrað manns.

8 sveitarforingjar HSSR. Í fremri röð Tryggvi Páll Friðriksson, Jóhannes Briem, Thor Eggertsson. Aftari röð; Jón Baldursson, Benedikt Gröndal, Haukur Harðarson, Ingimar Ólafsson og Kristinn Ólafsson. Myndin í bakgrunni er af fyrsta sveitarforingja HSSR og einum stofnanda, Jóni Oddgeiri Jónssyni.

Átta sveitarforingar 2014

Þverun straumvatna 2014

HSSR og nýliðar 2 skelltu sér í Krossána seinasta laugardag 6. sept. Þetta er eitt blautasta námskeið sem fólk kemst á. Byrjuðum í rólegu vatni upp að hnjám og enduðum í bringuháum holum. Fórum yfir öll öryggisatriði, frá því að kasta kastlínu og pendúla mannskap yfir Krossá yfir í hvernig á að synda í straumvatni. Eftir nokkurra tíma sull voru flestir kaldir en góðir, þá var ferðinni heitið í smá gilabrölt og skoða fossa í Gígjökli eins og hópmyndin sýnir hér að neðan. Þakka gott námskeið.

–Halldór Ingi Ingimarsson
Þverun straumvatna 2014

Helgafellsgangan 2014

Eftir nýliðafundinn á þriðjudaginn var áhugasömum boðið í göngutúr á Helgafell í Hafnafirði. Farin var hefðbundin leið upp úr Valahnúkaskarði og tekið stutt stopp uppi á toppinum, skrifað í gestabókina, nestis neytt og fjallasýnarinnar notið.10

Svo var haldið áfram yfir Fellið, niður í gegnum gatið og svo til baka meðfram fjallsrótum austurfyrir.

Nýliðarnir stóðu sig vel og hópurinn náði aftur vel fyrir sólarlag þrátt fyrir berjatínslu og spjall. Sveitarfélagar nutu samvistanna við þetta hressa fólk sem mun sæma sig vel í starfi Sveitarinnar. Continue reading

Umsóknarfrestur og fyrstu námskeið nýliða

Næstkomandi þriðjudag, 9. september kl. 18 að Malarhöfða 6, verður fyrsta viðburðurinn í þjálfun nýrra nýliða. Það er undirbúningur fyrir námskeiðið Ferðamennska og rötun og verður farið yfir pökkun í bakpoka og önnur nauðsynleg þekkingaratriði. Við minnum á að umsóknarfrestur rennur út að kvöldi þess sama dags. Umsóknum er skilað rafrænt og er slóðin bit.ly/hssr-umsokn-2014.

Um næstu helgi, 12.-14. september, verður fyrsti stóri viðburðurinn fyrir nýliða 2014-16 haldinn, en það er helgarnámskeiðið Ferðamennska og rötun sem haldið verður við Úlfljótsvatn. Þetta er mikilvægt grunnnámskeið sem liggur til grundvallar flestu því sem gerist eftirleiðis í þjálfuninni þannig að áríðandi er að nýliðar mæti þar.

Bæklingur til kynningar nýliðaþjálfun 2013-15 er hér http://issuu.com/hssr/docs/hssr-nylidabaeklingur-2014. Sé frekari upplýsinga þörf er hægt að senda nýliðaforingjum póst á netfangið hssr.nylidar.2014 hjá gmail.com

Við vonumst til þess að sjá sem flesta í sterkum og öflugum hópi nýliða.

Kynning á nýliðastarfi HSSR

ER1_8104
Þriðjudaginn 2. september heldur HSSR kynningarfund á nýliðastarfi sínu sem byrjar nú í september. Nýliðaþjálfunin er fyrir alla þá sem hafa áhuga á að taka þátt í starfi björgunarsveita og hafa áhuga á útivist.

Kynningarfundurinn hefst klukkan 20:00 og er haldinn í húsnæði sveitarinnar á Malarhöfða 6. Miðað er við að félagar á fyrsta ári séu fæddir 1996 eða fyrr.

Stofnun samtaka hollra vina eða bakhjarla HSSR

Stjórn HSSR boðar til fundar um stofnun samtaka hollra vina eða bakhjarla HSSR, og eru allir sem hafa einhvern tíma verið félagar, eða eru félagar velkomnir á fundinn sem verður haldinn;

í húsnæði HSSR að Malarhöfða 6, miðvikudaginn 17.september  2014  kl 20:00.

Vorið 2013 ákvað stjórn HSSR að hefja vinnu sem miðaði að því að ná saman á einn stað  nöfnum sem flestra félaga, sem einhvern tíma hafa starfað innan vébanda HSSR.

Stjórn sveitarinnar vill með þessu  reyna að endurnýja sambandið við gamla félaga sveitarinnar og stuðla að endurnýjuðum kynnum meðal  gamalla félaga, með það að markmiði að úr geti orðið einhverskonar hollvinasamtök vina eða bakhjarla, hópur eldri og reyndari félaga sem getur stutt við starfsemi HSSR með margvíslegu móti.

Undirbúningsnefndin hefur unnið talsvert starf við að samræma ýmsa félagalista og finna frekari upplýsingar um hvern og einn, eins og t.d. netföng. Nú er búið að skrá á nýjan lista milli 600 og 700 félaga, en þar af er u.þ.b. helmingurinn enn  skráður á einhverskonar félagalista innan HSSR.

Stefnt er að því að samtökin verði málefnamiðuð samtök sem taki að sér ýmiskonar vinnu við málefni sem hinir starfandi félagar eru ekki að sinna, en koma HSSR til góða.

Hugmyndin er að á fundinum verði kosin 5-7 manna stjórn samantakanna til 2-3 ára. Stjórnin verði ábyrg gagnvart stjórn HSSR og gefur henni stutta skýrslu um starfsemi samtakanna í lok hvers árs.

Undirbúningshópurinn telur áríðandi að halda starfseminni eins einfaldri og helst skemmtilegri, þannig að reyna megi eftir megni að endurupplifa „ævintýrið“ að vera félagi í hjáparsveit, og gera í leiðinni „gömlu sveitinni“ sinni eitthvert gagn.

Stjórn Hjálparsveitar skáta í Reykjavík óskar sérstaklega eftir að SJÁ ÞIG á fundinum, og vonar að ÞÚ getir áfram átt gott samstarf með gömlum og nýjum félögum innan HSSR.

Nánari upplýsingar um fundinn verða sendar út í byrjun september.

Þeir sem vilja geta sent upplýsingar um netfang sitt á bensi.grondal@simnet.is

f.h. undirbúningshópsins:

Benedikt Þ Gröndal

Eggert Lárusson

Laufey Gissurardóttir