Author Archives: Hjálparsveit skáta í Reykjavík

Undanfarar á NA hrygg Skessuhorns

Sunnudaginn 26. janúar sl. stefndu undanfarar og undanrennur í dagsferð upp NA hrygg Skessuhorns. Þessi leið hefur verið nokkuð vinsæl alpanísk klifurleið á veturna.
Í fyrra þegar ætlunin var að fara þess leið hömluðu óveðurský yfir tindinum för okkar og enduðum við því inn í Villingadal þar sem við klifruðum upp gil í suðurhliðum dalsins –  leiðin fékk heitið „Virgin Blöndahl“.
Í ár voru veðurguðirnir okkur hliðhollari og fengum við prýðis gott veður til fjallaferða.

Ferðin byrjaði eins og svo margar aðrar fyrir allar aldir upp á M6 þar sem hálfnakið fólk stóð fyrir framan skápana sína, barðist við að velja klæðnað fyrir daginn og búnað í bakpokan. Allt hafðist þetta að lokum og klukkan 10 vorum við komin að bænum Horni í Skorradal, réttar sagt fyrir utan hliðið.
Við vorum 7 saman og ákváðum að skipta okkur í tvo klifurhópa. Þá var kosið í lið eins og í barnaskóla forðum daga og að því loknu þrammað upp brekkurnar í átt að takmarki dagsins.

Eftir rúmlega klukkutíma göngu stoppaði heimasætan í hópnum og heimtaði lögbundið hádegishlé, það var því sest niður í brekkunum undir kötlum.
Þegar allir höfðu skellt í sig smá næringu var lagt af stað upp brekkurnar þar sem menn þrjóskuðust fram í rauðan dauðan við að setja á sig broddana.
Öll enduðum við samt undir klettunum á horninu og vorum að binda okkur í línurnar um 13:00.
Arnar, Magnús og Tinni lögðu fyrstir af stað og þræddu sig framhjá fyrstu klettabeltunum á meðan Ottó, Katrín, Danni M. og Stefan ákváðu að svindla ekkert á leiðinni og byrjuðu klifrið í fyrstu klettabeltunum. Kapphlaupið var spennandi á köflum og skiptust liðin á að halda forustunni upp hrygginn -svo hörð var keppnin að Tinni og Danni M. sviku lit og skiptu um lið.

Aðstæður voru ágætar og var aðallega notast við snjótryggingar en erfitt var að koma fyrir öðrum tryggingum.
Um kl. 17:00 komumst við upp á topp þar sem menn skáluðu í te og öðrum drykkjum.
Vindurinn var hinsvegar aðeins farinn að rífa í og útsýnið á toppnum takmarkað fyrir þoku/snjófoki.
Það var því ekkert annað að gera heldur en að smella af einni hópamynd og drífa okkur niður venjulegu gönguleiðina.
Þar var allt á kafi í snjó og eflaust snjóflóðahætta í sumum brekkunum. Allt gekk þetta samt vel að lokum og vorum við komin niður í bíl kl. 19:40, ánægð eftir góðan dag á fjöllum.

Ottó Ingi Þórisson.

Toppamynd
undanfarar á Skessuhorni

 

Tveir nýjir félagar í Hjálparsveit skáta í Reykjavík

Á stjórnarfundi þann 21. janúar sl. skrifuðu þeir Jóhannes Berg og Helgi Pétursson undir eiðstaf HSSR.
Þeir hafa báðir áralanga reynslu af starfi með björgunarsveitum en Jóhannes starfaði áður með Björgunarsveitinni Ok og Helgi með Björgunarsveitinni Ársæli.

Við bjóðum þeim hjartanlega velkomna til starfa.

Hér á myndinni má sjá Hauk sveitarforingja, Jóhannes og Helga.
photo 1

Reykjavíkurborg styrkir björgunarsveitir í Reykjavík

Jón Gnarr, borgarstjóri og fulltrúar björgunarsveita í Reykjavík undirrituðu þann 13. janúar sl. styrktarsamning. Björgunarsveitirnar sem um ræðir eru Hjálparsveit skáta í Reykjavík, Björgunarsveitin Ársæll, Björgunarsveitin Kjölur og Flugbjörgunarsveitin.

Samningurinn er til þriggja ára og mun Reykjavíkurborg styrkja björgunarsveitirnar um 10 milljónir árlega til að styðja við rekstur á samningstímanum. Samtals nemur styrk fjárhæðin 30 milljónum króna og er hún greidd óskipt til styrkþega og skulu þeir sjá um að skipta styrknum á milli sín skv. sérstöku samkomulagi þar um.

Jón Gnarr, borgarstjóri, sagði við undirritun samningsins að það væri afar mikilvægt að styðja við bakið á björgunarsveitunum. Liðsmenn sveitanna séu boðnir og búnir að leggja sjálfan sig í hættu til þess að koma öðrum til bjargar og það væri bæði aðdáunarvert og þakkarvert.

Meðfylgjandi er mynd sem tekin var að lokinni undirritun. Frá vinstri: Haukur Harðarsson, sveitarforingi hjá Hjálparsveit skáta, Þorsteinn Ásgrímsson Melén, Flugjbjörgunarsveitinni í Reykjavík, Jón Gnarr borgarstjóri, Hrund Jörundsdóttir, formaður Björgunarsveitarinnar Ársæls og Brynjar Már Bjarnason, formaður Björgunarsveitarinnar Kjalar.

Undirskrift Bjorgunarsveita Reykjavikur 3

Flugeldasala 2013

Sunnudaginn 29. desember verða sölustaðir okkar: Malarhöfði 6, Spöngin, Mjóddin, Bílabúð Benna, Grafarholt, Norðlingaholt og Skjöldungar opnir frá kl. 10 – 22.

Við tökum vel á móti ykkur.

Hér er Boli á flugeldavaktinni í Norðlingaholti (Ljósm. Julien Oberle).
1498871_10152071686439284_1105951677_o

 

Flugeldasala HSSR 2013

Flugeldamarkaðir björgunarsveitanna fara af stað af fullum krafti laugardaginn 28. desember kl. 14:00.

Í ár er Hjálparsveit skáta í Reykjavík með 7 sölustaði á eftirfarandi stöðum: Risaflugeldamarkaður á Malarhöfða 6, Spöngin, Bílabúð Benna, Mjóddin, Grafarholt, Norðlingaholt og hjá Skjöldungum í Sólheimum.

Líttu við á einhverjum af flugeldamörkuðum okkar og spjallaðu við björgunarsveitarfólkið sem þar er og veit flest um flugelda.
Þú færð fyrsta flokks þjónustu, frábæra flugelda og styður við bakið á björgunarsveitinni þinni í leiðinni.

flugeldarFB612x612

Aðalfundur HSSR 2013

Hjálparsveit skáta í Reykjavík
Fundarboð – aðalfundur 12. nóvember 2013

Stjórn Hjálparsveitar skáta í Reykjavík boðar til aðalfundar þriðjudaginn 12. nóvember næstkomandi. Fundurinn verður haldinn að Malarhöfða 6 og hefst klukkan 20:00.

Dagskrá fundarins verður með hefðbundnum hætti:

  1. Sveitarforingi setur fundinn og stýrir kosningu fundarstjóra.
  2. Fundarstjóri skipar fundarritara.
  3. Inntaka nýrra félaga.
  4. Fráfarandi stjórn gefur skýrslu um starf sveitarinnar.
  5. Gjaldkeri leggur fram endurskoðaða reikninga HSSR.
  6. Skýrslur nefnda.
  7. Lagabreytingar.
  8. Kosningar.
  9. Önnur mál.

Til þess að fundur geti hafist þarf þriðjungur fullgildra félaga að mæta. Við biðjum félaga því að mæta tímanlega.

Fullgildir félagar og nýliðar eru hvattir til að mæta og taka þátt í umræðunni.

Skrá yfir fullgilda félaga má finna á skjalasvæði HSSR.

Stjórn Hjálparsveitar skáta í Reykjavík.