Category Archives: Frá félögum

Þetta eru ferðasögur og hvaðeina sem félagar birta upp á sitt einsdæmi.

Fjallahjólaferð Eyþórs

Árleg fjallahópaferð Eyþórs verður fainn að venju. Lagt verður af stað 7. september klukkan 18.00 og komið til baka á Sunnudeginum. Gert ráð fyrir að hjóla í Skagafirði meðfram Austari-Jökulsá.

Plan B verður einnig sett upp.

Á fimmtudeginum 6. sept verður gengið frá hjólum vegna flutnings þannig að þeir sem ætla með þurfa að mæta þá með sín reiðhjól.Þeir sem ekki koma með hjólið sitt á fimmtudeginum fara ekki með í ferðina Skráning er hafin á D4H.

—————-
Höfundur: Haukur Harðarson

Afmælis- Lúxustrússferð HSSR 20. – 22. júlí sl.

Það voru 37 göngugarpar sem lögðu upp frá Landmannalaugum föstudaginn 20. júlí.
Fyrsti áfangastaður var Hrafntinnusker þar sem Frímann skálavörður tók vel á móti okkur.
Eftir smá spjall og uppsetningu tjaldbúða var tekin eftirmiðdagsganga að Íshellunum (sem hrundu) og að einum öflugasta goshver landsins; Hvínanda.
Frábær dagur í góðu veðri, logni og aðallega sól 🙂
Kvöldmaturinn samanstóð af hamborgurum með sósu og salati, ekta útilegumatur sem rann ljúflega niður.

Ræst var kl. 06 á laugardagsmorgun til að vera á undan lægðinni sem spá hafði verið seinna um daginn.
Labbað var svokölluð "´óhefðbundin" leið austan Háskerðings á milli Reykjafjalla áleiðis í Hvanngil.
Þarna leyndust bullandi leirhverir, tvílitir fossar, íshellar og ölkeldur er svöluðu þorsta manna – sannkölluð náttúruperla.
Veðrið var gott framan af degi en síðdegis var komin hin alíslenska rigning með tilheyrandi roki.
Það var því alsæll ( en þó vel vökvaður), gönguhópur sem kom í skála FÍ í Hvanngili eftir 23 km göngu.
Kvöldmaturinn samanstóð af lúxusafmælismat: Smjörsteikt lambaprime með hinum ýmsu salötum og sósum – sjaldan hefur smjörsteikt lambakjöt smakkast eins vel, enda kláruðust síðustu bitarnir morgunin eftir 🙂
Lægðin alræmda gekk yfir með tilheyrandi roki og beljanda þetta kvöld, allir voru því mjög sáttir við að njóta skálagistingar enda Deluxe ferð.
Sunnudagurinn var tekinn snemma, farangri pakkað saman og gengið á móts við rútuna sem sótti okkur við göngubrúna við Kaldaklofskvísl.
Það voru afar ánægðir ferðalangar sem mættu í höfuðstaðinn, brosandi út að eyrum eftir hreint út sagt frábæra ferð.

Takk fyrir okkur,
Melkorka og Kjartan

—————-
Texti m. mynd: Lúxustrússarar í Hrafntinnuskeri
Höfundur: Melkorka Jónsdóttir

Fjallahópur toppar Miðfellstind í Kjós

Það var vaskur hópur Fjallamanna – og konu sem toppaði Miðfellstind (1430m) laugardaginn 2. júní sl.
Gangan hófst í Skaftafelli kl. 04:30 þar sem gengið var áleiðis í Kjósarbotn. Þar var tekin 2 klst. nesti – og hvíldarpása áður en lagt var á sjálfan tindinn.
Toppnum var náð kl. 17:00.
Alls tók gangan 19 klst. – gengnir voru 38 km.

—————-
Texti m. mynd: Hópurinn á Miðfellstindi
Höfundur: Melkorka Jónsdóttir

Páskaferð á Eyjafjallajökull

Vaskur hópur sveina og sveinku gekk á Eyjafjallajökul annan í páskum. Farið var upp Skerjaleiðina á Goðastein og síðan fékk bílstjórinn að spangóla eitthvað í næsta nágrenni.

Afar flott veður og skíðafærið 110%

—————-
Texti m. mynd: Oddur klifjaður við gíginn.
Höfundur: Hilmar Már Aðalsteinsson

Fjallahópur á Skessuhorni

Sunnudaginn 4 desember fóru átta félagar í Fjallahópi í fjallgöngu á Skessuhorn. Spáð hafði verið nístingskulda og roki en nokkuð rættist úr veðri því þennan dag var frost vægt og vindur léttur norðan Skarðsheiðinnar.

Nokkuð þungfært var upp að toppi þar sem gljúpur snjór lá yfir öllu svo hópurinn skiptist á að ryðja slóðina frá vegi upp að Skessuhorni. Greiðlega gekk að finna leið upp sjálfa hlíðina en uppi á hryggnum var undirlagið ísi lagt. Göngumenn smelltu því undir sig broddunum fyrir síðasta spottann eftir hryggnum og upp á topp.

Gott skyggni var til austurs og vesturs og fallegt útsýni yfir hamrabeltin í Skarðsheðinni norðanverðri allt frá Heiðarhorni og inn að Skorradalsvatni. Eftir stutt stopp til að næra sig og njóta útsýnisins var svo haldið niður til að ná niður fyrir brattasta kaflann fyrir myrkur.

Sérdeilis prýðileg ferð og góð byrjun á vetrarvertíðinni.

—————-
Texti m. mynd: Fjallahópsliðar nálgast tindinn.
Höfundur: Martin Swift

Palli Sveins fimmtugur.

Páll Sveinsson fyrrum undanfari og undanfaraforingi í HSSR varð fimmtugur fyrir ekki löngu.
Félagar hans í flokknum Komasérundanogfara brugðu ekki út af hefðbundinni afmælisgjafahefð að þessu sinni eins og lesa má hér: http://www.visir.is/fekk-steypuklump-i-afmaelisgjof/article/2011710039991 Þeir sem eiga svona vini þurfa ekki að eiga óvini.Til hamingju með fimmtugsafmælið Palli.

—————-
Höfundur: Hlynur Skagfjörð Pálsson

Það verður hjólað í kvöld

Í kvöld 19. júlí hjólum við með sjónum í kringum gömlu Reykjavík + Seltjarnarnes sem er um 24km rúntur. Allir eru hvattir til að mæta, sama á hversu gömlu eða nýju hjóli þeir eru. Svo á HSSR tvö fjallahjól sem þarf að dusta rykið af og athuga hvort séu ekki í lagi. Lagt verður af stað frá M6 kl 18:30

—————-
Höfundur: Guðmundur Jón Björgvinsson

Sleðahópur hjólar

Á síðasta þriðjudag stóð sleðahópur fyrir hjólaferð og var meðal annars hjólað gegnum grafarholtið og í kringum Elliðavatn. Þorvaldur sá um að velja leiðina og voru allir sem tóku þátt mjög ánægðir með leiðarval þó að nokkuð hafi verið um brekkur, alls voru 7 sem mættu. Planið hjá okkur er að hjóla alla þriðjudaga kl 18:30 í sumar og eru öllum velkomið að mæta.Á morgun verður haldið í Mosfellsbæinn og verða hjólaðir á bilinu 20-30 km hlakka til að sjá sem flesta

kv Eiríkur

—————-
Höfundur: Eiríkur Lárusson

Denali toppur

Jæja, þá eru félagarnir Róbert Halldórsson og Guðmundur Halldórsson, búnir að toppa á hæsta fjalli Norður-Ameríku, Denali sem er um 20320 fet (6195 metrar). Þeir toppuðu um kl. 15.00 á laugardaginn var í mikilli snjókomu og litlu skyggni því miður. Það gekk hins vegar mjög vel og voru þeir komnir niður í 17.000 fet strax um kvöldið þar sem þeir gistu og héldu síðan niður í 14.000 fetin eftir það og voru þar í gær. Núna er stefnan tekin niður af fjallinu en það getur verið að þeir verði fastir í nokkra daga á jöklinum vegna þess að biðröð er í flugvélina sem flýgur milli Talkeetna "flugvallarins" (sem er á skriðjöklinum) og Anchorage.

Enn og aftur, styrktaraðilar:

Fjallakofinn með Scarpa, Marmot, Julbo, Smartwool, Helsport og Black Diamond
Real Turmat
Kostur
Swiss Miss
Corny
Canon á Íslandi

—————-
Texti m. mynd: Denali, Kaldasta fjall í heimi
Höfundur: Katrín Möller

Denali update

Þá eru þeir félagar, Róbert og Guðmundur Halldórssynir, komnir í 14.000 ft. á leið sinni upp á hæsta fjall Norður-Ameríku, Denali. Fjallið sjálft er 21.320 ft að hæð (6195 m) og stefna þeir á að toppa á næstkomandi fimmtudag eða föstudag. Ferðin hefur gengið glimrandi vel hingað til, aðeins búnir að sitja fastir í 14.000 fetunum vegna mikillar snjókomu en sem betur fer gátu þeir nýtt það til að renna sér í ferska púðrinu.

Minni aftur á styrktaraðila ferðarinnar:

Fjallakofinn með Scarpa, Marmot, Julbo, Smartwool, Helsport og Black Diamond
Real Turmat
Kostur
Swiss Miss
Corny
Canon á Íslandi

—————-
Höfundur: Katrín Möller