Category Archives: Frá félögum

Þetta eru ferðasögur og hvaðeina sem félagar birta upp á sitt einsdæmi.

Bíló á Mýrdalsjökli

Nokkrir meðlimir í HSSR skelltu sér á Mýrdalsjökul síðasta sunnudag og aðstoðuðu vísindamenn og konur við mælingar á snjóalögum síðastliðins árs. Mælingar gengu nokkuð vel og kom í ljós að síðan gosi lauk í Eyjafjallajökli hafa fallið milli 10 og 12 metrar af snjó á jökulinn. Ferðin gekk þó ekki alveg áfallalaust fyrir sig því báðir kjarnaborarnir duttu í sundur og festust ofan í jöklinum. Það tók smá tíma að ná borunum upp og var annar þeirra á 9 metra dýpi og var hann veiddur eins og fiskur í gegnum vök. Allt hafðist þetta þó að lokum og náðust báðir borarnir upp og allir fóru kátir og mis sólbrunnir heim. Það er frábært að fá tækifæri til að taka þátt í þessum mælingum og vonast allir sem fóru í ferðina til þess að fá tækifæri til að fara svona ferð aftur síðar.

—————-
Texti m. mynd: Borkjarni mældur og skráður af kostgæfni
Höfundur: Guðmundur Jón Björgvinsson

Denali

Róbert Halldórsson, meðlimur HSSR, var rétt í þessu að stíga upp í vél til Bandaríkjanna ásamt félaga sínum, Guðmundi E. Halldórssyni. Þeir fljúga til Seattle og þaðan til Alaska þar sem planið er að klífa hæsta tind Norður-Ameríku.

Denali er 6195 m. að hæð og er jafnan talið kaldasta fjall í heimi, en lægsti hiti sem þar hefur mælst er um -83,4°C með vindkælingu. Fjallið þekkist einnig undir nafninu Mount McKinley og er staðsett í Denali þjóðgarðinum í Alaska. Fyrsta tilraun við að klífa fjallið var árið 1903 en það var ekki fyrr en 1913 sem að slíkur leiðangur bar árangur. Arnór Guðbjartsson var síðan fyrsti Íslendingurinn til að klífa fjallið árið 1979.

Reiknað er með því að ferðin í heild sinni taki um 2 vikur en félagarnir gefa sér allt að 30 daga til þess að komast á tindinn vegna mikilla óveðra sem geta geysað þarna uppi.

Styrktaraðilar ferðarinnar eru:

Fjallakofinn með Scarpa, Marmot, Julbo, Smartwool, Helsport og Black Diamond
Real Turmat
Kostur
Swiss Miss
Corny
Canon á Íslandi

—————-
Texti m. mynd: Hæsta fjall Norður-Ameríku, Denali
Höfundur: Katrín Möller

HSSR fyrirsætur á forsíðu nýjasta bækling Conterra

Forsíða nýjasta Conterra bæklingsins var tekin á Íslandi síðastliðið haust eða nánar tiltekið í lok október í kringum ráðstefnuna Björgun.

HSSR tók að sér að vera með ferð upp á hálendið fyrir erlenda gesti og kynningaraðila sem sóttu ráðstefnuna og voru Conterra menn meðal þeirra. Frímann Ingvarsson og Daníel Guðmundsson voru farastjórar í þessari ferð og áttu þeir ekki í nokkrum vandræðum með að skella sér yfir í fyrirsætuhlutverkið enda myndarmenn á ferð og björgunarsveitarfólk reddar hlutunum þegar á þarf að halda.

—————-
Texti m. mynd: Segir myndin ekki meira en 1000 orð!
Höfundur: Helga Björk Pálsdóttir

Borðaglíma 2011

Myndband frá Borðaglímu HSSR sem haldin var að Gufuskálum 21. febrúar síðastliðinn. Gríðarleg þátttaka var og er þetta aðeins brot af glímunum. Í lokin má sjá feðga glíma við borðið rétt fyrir háttinn : )

Myndbandið

Hér má sjá nokkrar myndir frá sjónarhóli kokkaliðsins : )

Myndir

—————-
Höfundur: Gunnar Sigmundsson

HSSR peysa og húfa

Fatnaður hefur lengi verið vinsælt umræðuefni innan HSSR og sýnist sitt hverjum um notagildi og gæði. Nú virðist loksins runnin upp sá dagur að búið sé að finna fatnað sem henntar við allar aðstæður. Á myndinni má sjá Pál Ágúst félaga okkar klæðast peysu og húfu sem hann fékk í fimmtugsafmælisgjöf frá Láru sinni. Að sjálfsögðu hannaði hún munstrið sjálf og það er að finna undir almenn gögn á opnu svæði. Nú er bara að hefjast handa

—————-
Texti m. mynd: Náttúrulegur
Höfundur: Haukur Harðarson

Athugun á leitarsviði

Síðustu helgi tóku tveir félagar úr HSSR þátt í verkefni sem snýr að athugun á leitarsviði. Framkvæmdin var þannig að þátttakendur fengu lýsingu af týndum einstaklingi og síðan leið eða braut til að leita. Þegar þátttakendinn taldi sig finna eitthvað sem tilheyrði þeim týnda var það skráð niður.

Þetta reyndist hin besta æfing t.d. fór maður velta fyrir sér afhverju maður leitar svona en ekki einhvern vegin öðruvísi.

Laugardaginn 17 júli verður haldið áfram með þess tilraun og sett upp leitaræfing í Hvalfirði. Það vantar þátttakendur af öllum gerðum og stærðum þ.e. nýja félag, gamla félaga og úr öllum flokkum. Æskilegur búnaður er GPS og áttaviti.

Mæting er kl 10 upp í Hvalfjörð – skráning á Korknum

Verkefnið er í umsjón Einars í HSSK og er styrkt af nýsköpunarsjóði námsmanna.

—————-
Höfundur: Svava Ólafsdóttir

Vel heppnuð ferð á Hrútfell.

Fimm félagar héldu á Hrútfell á Kili sl. föstudag.

Þegar komið var á Kjöl var að þykkna upp og fjallið breiddi yfir sig skýjahjúp.

Við þverbrekknamúla, þar sem til stóð að tjalda voru allar lindir þurrar eftir snjólausan vetur og því var gengið vestar, nær fjallinu að svæði sem heitir Hvannir og tjaldað þar í gullfallegu umhverfi í góðum félagsskap óteljandi grasmaðka sem voru búnir að eigna sér svæðið og reyndu af öllum mætti að blanda geði við okkur og fá skjól í tjöldunum.

Um nóttina rigndi hressilega og skýin náðu allt niður í 600m þegar farið var á fætur um morguninn. Þá var tíminn nýttur til að ganga norður að Hlaupum sem er magnað klettagljúfur sem Fúlakvísl rennur um og víða er hægt að stíga þar yfir beljandi jökulánna. Eftir það héldum við í átt að Hrútfelli sem farið var að létta af sér skýjakúfinum. Hópurinn fékk sér góðan blund á milli þúfna á meðan veðrið lagaðist og upp úr kl. 15 var orðið ferðafært á fjallið. Við gengum upp óvenjulega leið, sem er þó augljós að sjá úr austri, en leiðin liggur upp Y-lagaðan skafl sem reyndist svo hinn fullkomna leið til að taka fótskriðu niður fjallið. Fyrir ofan skaflinn tók við falleg jökulskál þar sem fara þurfti í línur og ganga um af varúð þar sem ekki vantaði sprungur þar sem biðu spenntar eftir að fá að gleypa óvarkára göngumenn.

Hábungu fjallsins var svo náð upp úr kl. 18 í dýrðarinnar veðri. Síðan var haldið niður í tjöld þar sem grillað var og farið snemma í pokana. Á sunnudegi var svo ekið í bæinn með viðkomu í Hvítárnesi, Brúarfossi og gígnum Trintron á Lyngdalsheiði.

Annars er svo hægt að sjá fl. myndir úr ferðinni á Feisinu hjá mér.

kv. Árni Tr.

—————-
Texti m. mynd: Hópurinn á hábungu Hrútfells.
Höfundur: Árni Tryggvason

Hrútsfjallstindar 23. maí 2010

Helgina 22 – 23 maí stóð Viðbragðshópur fyrir fjallaferð á Hrútsfjallstinda sem er nafnið á 4 glæsilegum fjallstindum sem standa norðan við Svínafellsjökul og rís sá hæsti þeirra 1.875 mtr yfir sjávarmál.

6 HSSR liðar og 5 manna fylgdarlið hóf gönguna við rætur Hafrafells klukkan 00:00 sunnudaginn 23. Í heildina tók fjallaferðin okkur 16 klst, þaraf fóru 2 klst í að dást að útsýninu af Hátindi, hæsta tindi Hrútsfjallstinda, og við Vesturtind. Sem við fórum einnig uppá. Hina tvo ROSA flottu tinda, Miðtind og Suðurtind, létum við okkur nægja að dást af. Maður verður að fara þarna upp aftur og taka þá.

Veðrið var eins og það best getur orðið… logn, sól og steikjandi hiti. Það var varla hægt að tala um golu, en hún hefði verið vel þegin til að kæla aðeins.

Leiðin okkar sem er hin hefðbundna gönguleið á tindana býður upp á stórbrotið útsýni yfir Öræfajökul sem og skriðjöklana Svínafellsjökul og Skaftafellsjökul.

Óhætt er að segja að þetta sé stórkostleg fjallganga um heim jökla og hárra tinda.

Myndir úr ferðinni eru komnar á myndasíðuna.

Þeir sem mættu fá þakkir fyrir góða ferð.

—————-
Texti m. mynd: Hrútsfjallstindar 23. maí 2010
Höfundur: Ragnar K. Antoniussen

Fjallaferðir og sprungubjörgun.

HSSR félagar áttu góðar stundir í ríki Vatnajökuls um helgina.
23 félagar héldu á austanverðan jökulinn á föstudagsmorgun og ferðuðust um toppa og tinda í grennd við Goðahnjúka, í Heinabergsfjöllum og vestur og norður af Kálfafellsdal fram á miðjan mánudag.
Þá gengu sjö félagar, ásamt fylgifiskum á Hrútfjallstinda aðfaranótt sunnudags.

Á aðfaranótt þriðjudags var svo stórum jeppa bjargað úr enn stærri sprungu á Sylgjujökli, svona í leiðinni heim.
Eigandi jeppans hringdi hér í morgun og vill koma kæru þakklæti til þeirra sem að björguninni komu.

—————-
Höfundur: Hlynur Skagfjörð Pálsson

Fjölskylduferð tækjahóps á Geitlandsjökul

HSSR og tækjahópur buðu félögum og fjölskyldumeðlimum að venju í ferð á Geitlandsjökul á sumardaginn fyrsta. Að þessu sinni var farið á Geitlandsjökul í blíðskaparveðri. 40 manns mættu í ferðina á hinum ýmsu farartækjum: sleðum, skíðum, snjóþotum snjóbrettum og vélsleðum. Veðrið var eins og best gerist á fjöllum, logn og sól skein í heiði. Fólkið var ferjað upp á Bola og tveimur jeppum. Annað hvort var fólk dregið á skíðum á eftir Bola eða fékk að sitja í eða á farartækjunum. Farnar voru allmargar ferðir með skíðalyftuni Bola og vélsleðunum upp Geitlandsjökul og skíðað niður en á endanum var síðan tekið kaffi á toppi Geitlandsjökuls með stórkostlegu útsýni til allra átta. Að því loknu voru teknar nokkrar ferðir til viðbótar niður jökulhlíðarnar áður en haldið var heim á leið. Hópurinn kom síðan í bæinn um kvöldmatrarleytið útitekinn og alsæll eftir góðan dag á jökli. Í ferðinni voru nokkrir fjölskyldumeðlimir á leikskólaaldri sem fengu allir a prófa hvernig það er að sitja í framsætinu á Bola og er nokkuð ljóst hvað verður teiknað eða sagt frá í þeim leikskólum í dag.

Tækjahópur vill þakka öllum þeim sem tóku þátt í að gera þessa ferð mögulega, bæði með því að mæta í hana og að aðstoða við undirbúning hennar.

—————-
Texti m. mynd: Á toppi tilverunar (mynd Marteinn Sigurðsson)
Höfundur: Guðmundur Jón Björgvinsson