Hálendisvakt 2013

Á morgun halda fyrstu hópar til starfa á hálendisvakt björgunarsveita en hún mun standa út ágúst mánuð. Einnig ætlar fjöldi sjálfboðaliða að standa vaktina á ÓB og Olís stöðvum víða um landið og afhenda fræðsluefni og hvetja til ábyrgra ferðalaga í sumar.

Stuðið hefst kl. 16 og vaktin verður staðin til 20 eða svo lengi sem birgðir endast. Ferðalöngum verða afhentir litlir pokar sem má nota sem ruslapoka í bílinn. Í þeim verður Safetravel harmonikuspjald, 112 póstkort, bæklingur frá Sjóvá, framrúðuplástur og TRYGGJÓ 🙂

Pokanum fylgja svo góð ráð ef óskað er eftir og hvatning til ábyrgra ferðalaga í sumar. Þetta hefur tekist vel síðustu árin og vonandi verður svo líka núna.

Olís mun bjóða afslátt af eldsneyti auk þess sem hluti innkomu rennur til félagsins. Þeir munu auglýsa daginn vel og verða m.a. með netleik þar sem spurt verður um undirbúninga ferðalaga. Sjóvá verður með prentauglýsingar og auglýsingar i útvarpi og við vonumst til að detta inn í sem flesta fjölmiðla.

Klukkan 16:30 leggja fyrstu hópar af stað til fjalla frá Olís í Norðlingaholti og munu formaður félagsins og framkvæmdastjóri fylgja þeim fyrstu metrana. Þangað verður einnig stefnt fjölmiðlamönnum en einnig verða staðarmiðlar hvattir til að heimsækja stöðvar í sínu héraði.

HSSR tekur sem áður þátt í Hálendisvaktinni og munu tveir hópar frá okkur manna stöðvar Norðan Vatnajökuls og á Fjallabak sitthvora helgina í kringum verslunarmannahelgi.