Hengill í gjólu, með áttavita

Við DyradalNúna á laugardaginn trítlaði fagur hópur úr Sleggjubeinsdal, yfir Húsmúlann, gegnum Marardal og í Dyradal.  Uppistaðan í hópnum var glaðbeittur hópur nýliða, sem hafði átt góða helgi vikuna áður saman á Úlfljótsvatni, á námskeiðinu Ferðamennska og rötun.

Ferðin átti upphaflega að liggja uppá ‘svörtu’ gönguleiðina rétt við mynni Marardals, og þar uppá Vörðu-Skeggja, en þar sem gjólan stóð svo leiðinlega á okkur, ákváðum við að breyta um kúrs og halda stefnunni fram á veg.

Þar á dalseggjum Dyradals blés aðeins betur á hópinn, svo menn tóku skottísstöðu og valhoppuðu 3-4 saman, hönd í hönd, í skjól. Fóru nýliðar þar fram með aðdáunarverðum hætti, þótt ekki hafi allir reynslu af svona kúnstum á fjalli.

Allir komust að lokum í var í Dyradal þar sem bílahópsmenn sóttu okkur, aðeins fyrr en að var stefnt.

e.s. svona til þess að gæta sannmælis þá hefur líklega slegið aðeins yfir 20 m/s þegar mest var.