HSSR á hálendinu í ágúst

Í ágúst munu ellefu félagar úr sveitinni standa hálendisvakt á Sprengisandi og á svæðinu norðan Vatnajökuls. Verkefnin felast í ráðgjöf til ferðafólks og aðstoð ef einhver lendir í vandræðum. Áherslan er alltaf á góða ráðgjöf til þess að koma í veg fyrir óhöpp og hefur árangurinn af því starfi verið að sýna sig æ betur á undanförnum árum.

Hjálparsveit skáta í Reykjavík hefur sent hópa í 1-2 vaktir undanfarin ár og væntanlega verður ekkert lát á í framtíðinni. Góður árangur af rekstri hálendisvaktarinnar er ótvíræður og svo er þessi vikuvist góð þjálfun félagana í kringumstæðum sem sveitir af höfuðborgarsvæðinu komast sjaldan í tæri við í starfi sínu.

Ferðafólk er hvatt til þess að leita sér upplýsinga á vefjum Vegagerðar og Veðurstofu áður en lagt er í ferðalög. Þá er hægt að sækja margvísleg hollráð á vef Safetravel. Að lokum er minnt á að ávallt er hægt að hnippa í björgunarfólk þegar á hálendið er komið og fá góð ráð um ástand vega.

Á myndinni má sjá aðfarirnar við matseld í Drekagili árið 2014.

halendisvakt-2014