Félagar í sleðahóp HSSR fóru í æfingaferð á fjöll á föstudaginn og voru fram á laugardag. Ferðin hófst við Jöklasel við Mýrdalsjökul og var haldið yfir jökulinn í snar vitlausu veðri og engu skyggni. Það var ekkert sem minnt mann á að það væri komið sumar. Þegar yfir jökulinn var komið tók á móti okkur flott veður og allt á kafi í snjó á Fjallabaki. Við vorum með gistingu í Hvanngili og var haldið þangað til að losa sig við bensín og búnað. Frá Hvanngili var ferðinni heitið upp í Hrafntinnusker en þegar við vorum komnir upp brekkurnar í Jökultungum var rokið orðið svo mikið að menn þurftu að halda sér fast í sleðana. Snérum við því við niður á lálendið þar sem veðrið var mun skaplegra. Haldið var suður með fjöllunum og gil og skorningar þræddir og kíkt á Torfahlaup. Daginn eftir var haldið í Skófluklif og Strútslaug í flottu veðri. Að loknu baði hluta hópsinns var haldið á jökul því reyna átti við Eyjafjallajökul þar sem hópur úr HSSR var að aðstoða gönguhóp á toppinn. Veðrið var ekki eins gott á jökli og veðurspáin hafði lofað og skyggni ekkert. Með aðstoð leiðsögutækja komumst við í skálann á Fimmvörðuhálsi og snérum þar við þar sem við fengum fréttir að því að ekkert skyggni væri á jöklinum. Brunað var í bílana og haldið í bæinn til að fylgjast með kosningaúrslitum. Við vorum allir sammála um það hvað við kjósum en það eru fjöllin.
—————-
Texti m. mynd: Fallegt á fjöllum
Höfundur: Kristinn Ólafsson