Sunnudaginn 1. september fer 8 manns úr búðarhópi til Grænlands til að taka þátt í æfingunni SAREX2013. Æfingin snýst um samhæfingu skipa og flugvéla í leitar- og björgunaraðgerðum samkvæmt Arctic Concil SAR samkomulaginu frá maí 2011. Æfð verða viðbrögð og aðstoð við skemmtiferðaskip í neyð á norðurheimskautssvæðinu. Hlutverk hópsins er að setja upp búðir í Meistaravík og á eyjunni Elle sem stuðningur við medical teymi frá Danmörku og Grænlensku/Dönsku lögreglunni. Er þetta annað árið í röð sem búðarhópur tekur þátt í samskonar æfingu á Grænlandi.
Hópurinn flýgur til Grænlands með bandarískri herflutningavél ásamt fjarskiptahóp frá Björgunarsveit Hafnarfjarðar, mönnum frá SHS og SL samtals 16 mans. Á mánudaginn er ráðgert að hluti hópsins fljúgi áfram með þyrlum til eyjarinnar Elle og setji upp búðir þar. Ráðgert er að búðarhópur flugi heim frá Grænlandi föstudaginn 6. september.
Á æfingunni taka einnig þátt hópur falhlífastökkvara frá FBRS og 25 björgunarsveitarmenn frá 5 sveitum sem leika „skipsbrotsmenn“ þ.e. eru 5 úr sjúkrahópi HSSR. Sjúkrahópurinn flýgur til Grænlands 3. september.