Búðahópur ⛺🔥

Búðahópur HSSR sér um uppsetningu og rekstur tjaldbúða í stærri eða lengri leitar- og björgunaraðgerðum. Hlutverk hópsins er að tryggja að björgunarfólk hafi skjól og aðstöðu til að hvílast og nærast í krefjandi aðstæðum.

Tjöld hópsins eru vel útbúin fyrir erfiðar aðstæður en hafa einnig verið notuð sem svefnrými eða sameiginleg aðstaða þegar sveitin sinnir hálendisgæslu eða örðum verkefnum. Hópurinn sér til þess að búðirnar séu vel staðsettar, uppsettar á skilvirkan hátt og tilbúnar til notkunar hvenær sem þörf krefur.

Flutningur á búðunum ræðst af aðstæðum hverju sinni. Ef svæðið er torfært og aðgengi erfitt er búnaðurinn fluttur með stórum breyttum bíl. Ef aðgengi er einfaldara er notast við sendibíl sveitarinnar, en í sumum tilfellum getur þurft að flytja hluti með þyrlu til að koma búðunum á réttan stað.

Hópurinn heldur úti reglulegum æfingum þar sem æft er að setja upp tjaldbúðir, ásamt að æfa notkun á öllum þeim búnað sem tilheyrir búðunum. Þannig tryggja hópurinn að búðirnar séu settar upp hratt og örugglega í hvaða aðstæðum sem er.

Búðahópurinn á sér einnig merka sögu í alþjóðlegum björgunaraðgerðum. Þegar Íslenska Alþjóðasveitin var starfandi, var Búðahópurinn hluti af henni og tók meðal annars þátt í aðstoð á Haíti eftir jarðskjálftann árið 2010. Einnig var búðahópurinn hluti að alþjóðlegum samhæfingarhóp Landsbjargar sem fór til aðstoðar í Tyrklandi eftir jarðskjálftana þar 2023.

Hópstjórar búðahópsins hafa umsjón með endurnýjun á öllum búðum sveitarinnar, hvort sem það eru tjöld, rafstöðvar, stórir hitablásarar, ljóskastarar, beddar eða annar búnaður sem tryggir aðstaðan sé ávallt sem best útbúin fyrir aðstæður hverju sinni.

Með skipulagi og þekkingu tryggir Búðahópurinn að björgunarfólk hafi nauðsynlega aðstöðu til að vinna lengur í erfiðum aðstæðum – hvort sem er í leit, björgun eða mannúðaraðgerðum. 🏕️🍲

  • Gunnar Kr. Björgvinsson

    Félagi síðan : 2009

  • Svava Ólafsdóttir

    Félagi síðan : 2010

Algengar spurningar

Hvað gerir búðahópurinn í HSSR?

Búðahópurinn sér um uppsetningu og rekstur tjald- og aðstöðubúða í stærri eða lengri leitar- og björgunaraðgerðum. Þar geta björgunarsveitarmenn leitað skjóls, hvílst og fengið sér mat og drykk á vettvangi.

Hvaða búnað hefur búðahópurinn umsjón með?

Hópurinn sér um tjöld, rafstöðvar, hitablásara, lýsingu, borð og bekki, eldunar- og hitunarbúnað, bedda og annan búnað sem nýtist til að skapa þægilega og örugga aðstöðu á vettvangi.

Hvers konar æfingar heldur búðahópurinn?

Hópurinn æfir uppsetningu og niðurrif tjald- og aðstöðubúða, notkun á rafstöðvum og hitakerfum og skipulag þeirra búða sem sveitin á.

Hvenær er búðahópurinn kallaður út?

Búðahópurinn er kallaður út þegar þörf er á tjöldum og aðstöðu fyrir björgunaraðgerðir, langvarandi leitir eða önnur verkefni þar sem sveitin er lengi að störfum.

Hvað gera hópstjórar búðahópsins?

Hópstjórarnir hafa umsjón með viðhaldi og endurnýjun búnaðar, skipuleggja æfingar og tryggja að hópmeðlimir séu vel þjálfaðir í uppsetningu og rekstri búðanna.