Lionshreyfingin á Íslandi færði Slysavarnarfélaginu Landsbjörgu í gær eina milljón króna til kaupa á tveimur rafstöðvum fyrir íslensku alþjóðabjörgunarsveitina. Slíkar rafstöðvar eru meðal þess búnaðar sem sveitin skildi eftir á Haíti þegar sveitin fór til hjálparstarfa þar. Gísli Rafn Ólafsson, einn af stjórnendum Íslensku alþjóðabjörgunarsveitarinnar, tók við gjöfinni frá þeim Guðmundi Oddgeirssyni og Kristni Hannessyni, umdæmisstjórum Lions á Íslandi og Guðrúnu Yngvadóttur, fjölumdæmisstjóra. Við þetta tækifæri sagði Gísli Rafn að afar mikilvægt væri að koma sveitinni sem fyrst í útkallshæft form og að stuðningur og velvilji sem þessi skipti þar miklu máli.
—————-
Höfundur: Haukur Harðarson