Í HSSR er boðið upp á öfluga nýliðaþjálfun sem hefst í byrjun september ár hvert. Dagskráin er kynnt á opnum fundum 26. og 31. ágúst kl. 20, þar sem áhugasömum gefst tækifæri á að sjá þjálfunaráætlun nýliða, kynnast starfi sveitarinnar, skoða aðstöðuna og tækin ásamt því að hitta nýliða og fullgilda félaga og spyrja spurninga. Fundirnir verða í fullu samræmi við gildandi takmarkanir í samkomubanni vegna Covid-19.
Fundinum 26. janúar verður streymt á Facebook síðu sveitarinnar sem er facebook.com/reykur.
Fundirnir verða fyllilega í samræmi við allar kröfur sem gerðar eru vegna Covid-19. Til þess að hægt verði að tryggja réttan fjölda fólks og lágmarks fjarlægð á milli gesta biðjum við áhugasama um að skrá sig á þann fund sem hentar þeim. Verði skráðir gestir fleiri en salurinn rúmar munum við upplýsa fólk í tölvupósti. Fundinum verður streymt á Facebook á vefslóðinni facebook.com/reykur.
Hagnýtar vefslóðir
Kynningarbæklingur um nýliðastarfið.
Umsókn um þjálfun sem nýliði í HSSR.
Almennt um nýliðaþjálfun
Fyrir flesta nýliða tekur þjálfun 20 mánuði. Á þeim tíma kynnast væntanlegir félagar því hvað fylgir því að starfa í björgunarsveit og fara á námskeið til þess að styrkja þá í væntanlegu starfi þeirra í sveitinni. Fyrra árið þjálfar fólk sem nýliðar 1 (N1), en færast upp í nýliða 2 (N2) seinna tímabilið ef öll áskilin námskeið hafa verið kláruð. Þátttakendur þurfa að vera vel á sig komnir líkamlega og andlega, reiðubúnir til að takast á við fjölbreytileg og erfið verkefni, hafa góð tök á íslenskri tungu og vera tilbúnir til þess að sýna frumkvæði og styrk.
Gott að vita ef þú ert að velta fyrir þér þátttöku í nýliðaþjálfun
Í byrjun þjálfunar eru nokkrir viðburðir sem nýliðar þurfa að mæta í og eru þeir helstir þessir:
- Kvöldganga (2. september), ekki skylda, mæting við Helgafell kl. 18:30.
- Búnaðarkynning (7. september)
- Lokafrestur til þess að skila inn umsókn um vist í nýliðaþjálfun
- Dagsganga (11. september), líklega á Vörðu-Skeggja
- Ferðamennska og rötun (17.-19. september), haldið á Úlfljótsvatni
- Fyrir þetta námskeið þarf að hafa eftirfarandi búnað
- Áttaviti (helst með spegli)
- Reglustiku (og gráðubogi er æskilegur)
- Ritföng og pappír
- Fyrir þetta námskeið þarf að hafa eftirfarandi búnað
- Helgargönguferð (24.-26. september), gist í tjöldum
Takið þessar dagsetningar frá ef þið eruð að íhuga þátttöku!
Fyrra árið í þjálfun
Á fyrra ári (12 mánuðir) er lögð áhersla á að nýliðar öðlist þann þekkingargrunn sem nauðsynlegur er svo þeir geti verið sjálfbjarga og tryggt eigið öryggi í æfingum og aðgerðum. Námskeið sem eru kennd á þessu ári eru meðal annarra:
- Ferðamennska og rötun
- Fyrsta hjálp
- Ferðast á jökli
- Grunnatriði í snjóflóðum
- Fjallamennska
- Jöklaganga
- Veðurfræði til fjalla
- Spottamál
- Klifur og sig
Auk þess er farið í fjölda ferða; tjaldferðir í vetraraðstæðum, gönguskíða- og snjóhúsaferð og fleira. Nýliðar þurfa að vera virkir í að þjálfa sig og æfa utan formlegrar dagskrár.
Seinna árið í þjálfun
Á seinna árinu (u.þ.b. 8 mánuðir) er lögð á áhersla á fræðslu og þjálfun í því sem tengist beint þátttöku í æfingum og aðgerðum og má þar telja leitartækni og framhald í fyrstu hjálp. Þá fá væntanlegir félagar tækifæri til þess að sérhæfa sig á þeim sviðum sem þeir hafa sérstakan áhuga á. Geta þeir þar valið um námskeið í fjallamennsku, ísklifri, fyrstu hjálp, rústabjörgun og mörgu öðru. Á þessu tímabili taka félagar virkan þátt í starfi hópa HSSR og kynnast sveitinni þannig með beinum og virkum hætti.
Áfram er farið út fyrir borgarmörkin og ferðast í styttri og lengri ferðum. Nýliðar eru áfram virkir í að þjálfa sig og æfa utan formlegrar dagskrár.
Fullgilding nýliða
Flestir félagar ganga inn í sveitina 20 mánuðum eftir að þeir hefja nýliðaþjálfun sína. Fullgilding nýliða er háð því að nýliðar taki ákveðin grunnnámskeið sem allir þurfa að fara í gegnum ásamt því að hafa mætt í þær ferðir sem til er ætlast og sýnt virkni í starfi.
Fjáraflanir
Starf HSSR, sem og allra annarra björgunarsveita hérlendis, er háð fjáröflunum. Rík áhersla er því lögð á að væntanlegir félagar í sveitinni taki þátt í því starfi og kynnist mismunandi fjáröflunum. Á síðustu árum hefur HSSR meðal annars selt flugelda, selt Neyðarkall, sinnt viðhaldi á gönguleiðum á Hengilssvæðinu, sinnt gæslu á kappleikjum á Laugardalsvelli, sett saman og skotið upp flugeldasýningum auk annarra verkefna sem sveitin er beðin um að annast.
Hafir þú spurningar sem ekki er svarað hér getur þú sent okkur póst á hssr@hssr.is.
Umsókn um þjálfun sem nýliði í HSSR.