Nokkrir meðlimir í HSSR skelltu sér á Mýrdalsjökul síðasta sunnudag og aðstoðuðu vísindamenn og konur við mælingar á snjóalögum síðastliðins árs. Mælingar gengu nokkuð vel og kom í ljós að síðan gosi lauk í Eyjafjallajökli hafa fallið milli 10 og 12 metrar af snjó á jökulinn. Ferðin gekk þó ekki alveg áfallalaust fyrir sig því báðir kjarnaborarnir duttu í sundur og festust ofan í jöklinum. Það tók smá tíma að ná borunum upp og var annar þeirra á 9 metra dýpi og var hann veiddur eins og fiskur í gegnum vök. Allt hafðist þetta þó að lokum og náðust báðir borarnir upp og allir fóru kátir og mis sólbrunnir heim. Það er frábært að fá tækifæri til að taka þátt í þessum mælingum og vonast allir sem fóru í ferðina til þess að fá tækifæri til að fara svona ferð aftur síðar.
—————-
Texti m. mynd: Borkjarni mældur og skráður af kostgæfni
Höfundur: Guðmundur Jón Björgvinsson