Á dögunum var komið að máli við nokkrar björgunarsveitir á Höfuðborgarsvæðinu með að aðstoða við verkefni sem Rögg er að þróa í samstarfi við Landhelgisgæsluna. Verkefnið gengur út á að miða út GSM síma úr þyrlu með því að fljúga yfir leitarsvæði með sérhannaðan búnað. Með þessu má hvort tveggja finna síma utan þjónustusvæðis og auka nákvæmni miðunarinnar úr um 530 metrum niður í um 60 metra.
Þyrlusveit Landhelgisgæslunnar hefur verið að gera tilraunir við að miða út síma í mismunandi landslagi. Fyrir mælingar í jökulsprungum var kosið að leita til björgunarsveitanna við að finna og koma símum niður í sprungur.
Flogið var með TF-SIF á Sólheimajökul og hentugir svelgir fundnir. Veður var með afbrigðum gott og aðgerðin gekk vel.