Austurdalsferðin tókst með eindæmum vel, þrátt fyrir að stór hluti leiðarinnar hafi verið genginn í tunglsljósinu einu saman. Þar var á ferð vel upplýstur hópur sem hafði meðal annars í huga að kynna sér hugsanlegar virkjunarframkvæmdir Skagafjarðarmanna. Frækinn hópurinn (og þá sérstaklega nýliðarnir!) komst í hús (Hildarsel) eldsnemma á laugardagsmorgun (kl. 4.30) eftir dágóða göngu frá Merkigili, yfir Moniku-brú, framhjá Ábæjarkirkju, nokkra læki, hóla og hæðir. Reykur III trússaði innað skála, en var aðeins kominn á staðinn stuttu á undan hópnum, vegna illsjáanlegs slóða.
Laugardagurinn tók á móti okkur með glaða sólskini og hvínandi roki, hvassviðrið var hvílíkt að bakpokar og höfuðföt göngumanna fuku um koll og kolla. Gengið var í átt til sólar, inn Austurdal með vindinn í fangið framan af. Gróskumiklar hlíðar dalsins skörtuðu sínu fegursta í öllum mögulegum haustlitum og var þetta allt saman myndað í bak og fyrir. Þegar leið á daginn fannst nokkrum pörupiltum sólin vera farin að hita mikið og góð ástæða til að fara úr að ofan. Frést hefur að þeir hinir sömu séu nú uppfullir af hósta og kvef bakteríum. Þegar síðasta vaðið var vaðið skall myrkrið á fyrirvaralaust og upphófst vandasamur ratleikur um skógivaxnar hlíðar dalsins. Með mikilli útsjónarsemi og ratvísi komst hópurinn uppá fjallsbrún og gekk sem leið lá í bílana (með nokkrum hlykkjum þó). Laugafelli var náð um miðnætti og skelltu menn og konur sér í laugina, ýmist með eða án sundfata. Grill, svolítið grín og að lokum kojan. Burrað í bæinn á góðum millitíma. Ekki féllu nema 3 regndropar úr lofti þessa helgina, þrátt fyrir heilmiklar spár um annað.
—————-
Texti m. mynd: Nýliðar á leið yfir Hölkná
Höfundur: Hrafnhildur Hannesdóttir