Björgun úr Krossá

Það er ekki á hverjum degi sem félagar í HSSR eru á forsíðu Morgunblaðsins vegna björgunarafreka. Það gerðist þó síðasta föstudag þegar Helga Garðarsdóttir bjargaði 14 ára dreng úr Krossá. Hér er úrdráttur úr Mbl.

Augnablikið var langt,” segir Helga Garðarsdóttir, skálavörður í Langadal í Þórsmörk, sem bjargaði 14 ára dreng úr Krossá í fyrradag með því að elta hann meðfram ánni á dráttarvél og keyra svo út í.

,,Hann gat ekki fótað sig, straumurinn tók hann. Ég komst niður fyrir hann og náði honum, en missti hann einu sinni. Þá fór hann undir traktorinn, það var frekar svakalegt. En þá hélt ég bara áfram niður eftir. Í einni beygjunni náði ég að smeygja traktornum út í þannig að strákurinn gat gripið í dekkið. Ég vissi að ef ég færi sjálf út í ána þá tæki straumurinn mig líka. Þá fór ég út, skorðaði mig við brettið á traktornum og gat gripið í höndina á honum. Ég notaði líkamsþyngdina til að toga hann að mér svo hann gæti gripið í eitthvað, en hann var orðinn ansi þreyttur og máttlaus.

,,Þetta fór ótrúlega vel,” segir Helga að lokum og játar því að tilfinningin sé góð að hafa getað hjálpað til.

—————-
Höfundur: Haukur Harðarson