Björgunarleikar á Hellu heppnuðust fullkomlega.

Eins og margir hér vita var okkur í Fjallahóp HSSR falið að annast framkvæmd Björgunarleikanna sem haldnir voru á Hellu laugardaginn 14. maí í tengslum við landsþing Slysavarnafélagsins Landsbjargar.

Hér var spennandi verkefni fyrir nýjan hóp, sem ekki hefði tekist að sinna nema með brennandi áhuga og svo auðvitað ómetanlegri aðkomu félaga annarra hópa. Af öllum ólöstuðum, má þakka frábært skipulag eins nýjasta félaga flokksins sem er Vilhelm Sigurðsson. Undirbúningur keppninnar hófst í febrúar með vettavangsferðum og hugmyndavinnu og svo skýrðist dagskráin og mótaðist eftir því sem nær dró keppni. Þegar keppnisdagurinn rann svo loks upp voru 20 lið mætt til leiks og tókust á við sjö aðalþrautir og nokkur aukaverkefni þurfti svo að leysa. í verkefnum dagisins reyndi á á ótal margt sem björgunarmenn þurfa að kunna, auk þess sem við reyndum að miða dagskránna við allra næsta nágrenni Hellu, þannig að lengst þurftu hóparnir að fara austur að Rauðalæk. Þrautirnar reyndu á skyndihjálparkunnáttu, línuvinnu, klifurkunnáttu, „vatnshræðslu“, húmor og hugmyndaflug og svo auðvitað þrek og úthald. Keppnin hófst kl. 7:30 um morguninn og stóð til kl. 16:00 síðdegis.

Eftir keppni lýstu nær allir þátttakendur yfir mikilli ánægju með framkvæmd og skipulag keppninnar. Allt rennsli var gott og hóparnir komust nánast alltaf beint í sín verkefni eins og tímaáætlun hafði verið sett upp.

Það var því skemmtilegt að vera fulltrúi sveitarinnar á árshátíð SL um kvöldið, meðtaka hrósið og þakkirnar og síðast en ekki síst að fá að stjórna verðlaunaafhendingunni. Í fyrsta sæti var hópur frá Súlum á Akureyri, í öðru var björgarnsveitin á Akranesi og í þriðja sæti var eitt tveggja liða frá HSSG.

Við lukum okkar verkefni með sóma og stefnum því á að verða þátttakendur í keppninni þegar hún verður haldin næst.

Með kærri kveðju og ítrekun á þökkum til allra sem að keppninni komu.

Árni Tryggvason

—————-
Texti m. mynd: Farið yfir Ægissíðufoss á línubrú.
Höfundur: Árni Tryggvason