Gömul brýni í skíðaferð.

Gömlu brýnin í Eftirbátum fóru sína árlegu gönguskíða vorferð um síðustu helgi. Líkt og oft áður var haldið norður fyrir heiðar. Lagt var í’ann kl. 7 á föstudagsmorgun á Woffanum og var stefnan tekin á innsta bæ í Eyjafirði, þar sem gangan hófst. Í brekkunni við Þverárrétt í Öxnadal ókum við fram á bílveltu þar sem Jón Baldursson stjórnaði af mikilli festu og kallaði til þrjá sjúkrabíla enda 8 farþegar í bílnum sem valt. Allt endaði vel og hópurinn náði að gæða sér á dýrindis bakkelsi í bakaríinu við brúna áður en lengra var haldið.

Gengið var upp Vatnahjallann, austan við Sankti Pétur og komið í hinn margrómaða fjallaskála Bergland kl 20:30. Fía reiddi síðan fram dýrindis kvöldmáltíð fyrir þreytta ferðafélaga.

Á laugardeginum var gengið í Austurdal um Fremri Hvítárdal sem eru drög sem teygja sig hálfa leið að Berglandi. Snjórinn var annað hvort í ökkla eða eyra þar sem mjög snjólétt var í drögunum að frátöldum nokkrum stórum snjóflóðum sem við klöngruðumst yfir. Ekki fór heldur mikið fyrir snjónum í Austurdal en með þrautsegju fundust einhver snjókorn á reiðveginum. Hópurinn var mis þrjóskur enda margir þrjótar á ferð. Sumir þrjóskir þrjótar gengu á skíðunum nær sleitulaust í Hildarsel sem er skáli í Austurdal í eigu Ferðafélags Skagfirðinga.

Á sunnudeginum voru gengnir 600 metrar á skíðum og tæpir 9 kílómetrar með skíðin á bakinu. Eftirbátar eru að hugsa um í framtíðinni að skella sumar- og vetrarferð saman í eina ferð, eftir þessa reynslu.
Félagar í Flugbjörgunarsveitinni í Varmahlíð tóku síðan á móti hópnum við kláfinn við Skatastaði.

Ferðin var talsvert ævintýri enda fengum við að heyra það hjá húsfreyjunni á Bústöðum að hún vissi aðeins um einn annan hóp, í gegnum árin, sem hefði gengið á skíðum yfir Nýjabæjarfjall.

Eftir á að hyggja þarf að vanda leiðaval verulega með tilliti til snjóflóða þar sem miklar hengjur safnast í drögin á þessum slóðum.

Myndir er að finna á http://www.flickr.com/photos/hilmarmar

Eftirbátar

—————-
Texti m. mynd: Á leið í Bergland í kvöldsólinni.
Höfundur: Hlynur Skagfjörð Pálsson