Nokkrir nýliðar smelltu sér í helgarferð í Reykjadal helgina 14-15. mars til að æfa aðeins það sem við höfum lært í vetur. Upphaflega var ætlunin að ganga úr Sleggjubeinsskarði yfir í Reykjadal en þar sem Hellisheiðin var ófær varð lendingin plan C, rölt frá Hveragerði upp í Reykjadal. Þegar komið var í skálann var farið í bað í Klambragili en áhöld eru um hvort hópurinn hafi lyktað verr fyrir eða eftir baðið.
Eftir það tók við einhver sú ævintýralegasta grillmennska sem undirrituð hefur tekið þátt í enda 15-20 m/sek og snjókoma. En eftir að hafa dröslað kolum og kjöti uppeftir var ekki annað í stöðunni en að láta slag standa og var byggður myndarlegur skjólveggur í hálfhring umhverfis kolagröfina. Eldunin heppnaðist frábærlega og hópurinn gæddi sér á dýrindis lambakjöti, kartöflum og salati að ógleymdri skyrtertunni í desert.
Á sunnudeginum var bongó blíða á milli élja og voru skoðaðir nokkrir hverir á leið til byggða og strætó tekinn í bæinn eftir sund í Laugaskarði og burger á Kaffi Kidda Rót.
—————-
Texti m. mynd: Grillið góða.
Höfundur: Rún Knútsdóttir