Kynning á nýliðaþjálfun

Um 60 manns sóttu kynningu á nýliðaþjálfun HSSR sem fram fór á M6 þriðjudagskvöldið 7. september. Haukur Harðarson opnaði kynninguna, bauð fólk velkomið og lýsti því eftir hvers konar fólki sveitin væri að leita. Þá tóku nýliðaforingjarnar, Ásgeir Björnsson og Einar Ragnar, við og fóru yfir dagskrá þjálfunarinnar og þær kröfur sem gerðar verða til væntanlegra nýliða. Vilhelm Sigurðsson og Ástþór Gíslason tóku svo til máls og lýstu upplifun þeirra sem nú eru í hópi nýliða 2. Í lokin var myndasýning frá ferð nokkurra HSSR félaga til Kanada og gerði hún góða lukku.

Eftir þetta bauðst áhugasömum að fara um húsið og kynna sér starfsemina og voru margir sem þáðu það. Klifurveggurinn var vinsæll að venju og voru margir sem spreyttu sig á honum.

Kynningin tókst afar vel í alla staði og verður það félögum í HSSR mikið ánægjuefni að taka á móti glæsilegum hópi nýliða í vetur.

Glærur frá kynningarfundinumDagskrá nýliða 1 veturinn 2010-2011Kynningarbæklingur nýliðastarfsinsUmsóknareyðublað nýliðaMinnt er á fjall kvöldsins fimmtudaginn 9. september, sem er Helgafell. Brottför frá Malarhöfða 6 kl. 18:00. Nýliðar þurfa svo að skila inn umsóknum í síðasta lagi þriðjudag 14. september þegar námskeið um ferðabúnað verður haldið.

—————-
Texti m. mynd: Svipmynd frá kynningu á nýliðastarfi
Höfundur: Ólafur Jón Jónsson