Tindfjallaskáli kominn í bæinn!

Hópur manna og kvenna, með félaga og tæki HSSR, fremsta meðal jafningja, stormuðu upp í Tindfjöll um helgina. Tilgangur ferðarinnar var að ná í Tindfjallaskála ÍSALP og flytja hann í bæinn. Er þetta fyrsti liðurinn í endurbyggingu skálans, sem er orðinn ansi illa farinn. Í stuttu máli gekk ferðin einstaklega vel fyrir sig og var skálinn kominn til byggða tæpum sólarhringi síðar. Hann er nú geymdur tímabundið á góðum stað þar til samið hefur verið um varanlegt geymslupláss. Vert er að hrósa Hlyn okkar Skagfjörð sérstaklega fyrir góða skipulagningu, röggsama stjórnun og skemmtilegar sögur meðan á flutningnum stóð. Aðrir HSSR-ingar sem komu að þessu verkefni var undirritaður, Hrafnhildur, Dagbjartur, Jói Rögg, Kristján Guðni, Hallgrímur Magg og Tommi Júll.

HSSR styrkir þetta verkefni myndarlega og það mikill sómi fyrir sveitina. Fyrir utan mannskap lagði sveitin til nýja vörubílinn, Reyk 1 ásamt ýmis tæki og tól. Við getum verið reglulega stolt af okkur!

Vert er að minna aðkomu annarra að þessu verkefni. Hjálparsveitin í Garðabæ lagði til Góla og Maggýu (ex. HSSR) ásamt bíl og rústabjörgunarkerru, Björgunarfélagið Árborg mætti með kranabíl og jaxlinn Stefán. Einnig lét Tommi Júll lystigarðagröfu sína í verkið. Miðdalsfeðgarnir Maggi Hall og Halgrímur Magg, opnuðu skálann sinn og buðu verkamenn upp á kaffi og gistingu.

Vannst verkið, eins og fyrr sagði, vel og hratt. Samvinna var góð og stemningin hin hressasta! Nú tekur við næsti fasi verkefnisins sem er að klára að semja um varanlegt geymslupláss fyrir skálann. Því næst hefst hin eiginlega smíðavinna. Samhliða þessu mun fara fram styrkjar- og fjármögnunarvinna.

Hvet alla sem vettlingi geta valdið til að aðstoða við þetta metnaðarfulla verkefni!

Steppo

P.s.
Myndir hér: http://maggy.smugmug.com/gallery/5675890_Bzq9q#349773938_Y42az

—————-
Texti m. mynd: Nýji trukkurinn að starfi!
Höfundur: Stefán Örn Kristjánsson