Vatnajökulsferðin nálgast…

Merkilegt nokk, þá styttist enn í Vatnajökulsferðina góðu 16.-20. maí!

Í dag eru plönin á þennan veg: Farið frá M6 um kl. 19 á miðvikudag og ekið austur í Suðursveit. Á fimmtudag munum við samgleðjast Norðmönnum og burra á Bola frá Skálafellsjökli í Grímsvötn, líklega með einhverjum skíðaferðum á toppa austurjökulsins. Föstudagurinn mun heilsa okkur með bongóblíðu og þá höldum við á suðvesturhluta Vatnajökuls. Við sláum upp tjaldbúðum á góðum stað og svo verður þessi tiltölulega lítt þekkti hluti jökulsins kannaður frekar á skíðum, bröltandi og gangandi. Við höfum til sunnudagsmorguns til að skoða m.a. Pálsfjall, Þórðarhyrnu og Nibburnar, Geirvörtur, Hágöngur og jafnvel niður að Grænalóni. Á sunnudag verður svo burrað á Bola í Jökulheima þar sem okkar bíður far í bæinn þar sem við stefnum á að vera upp úr kl. 18.

Gist verður í tjöldum í ferðinni. Fólk þarf að vera vel búið og sjálfu sér nægt með allar græjur og mat. Við þurfum að skiptast á að hanga aftan í Bola á skíðum og sitja inni. Þeir sem hafa hug á að koma á eigin tækjum geta auðvitað slegist í hópinn hvenær sem er ferðar. Og… Skráið ykkur á korkinum eða með skeyti á halfdana(hjá)gmail.com.

—————-
Texti m. mynd: Kerlingar
Höfundur: Hálfdán Ágústsson