Fórum í nokk fjölmenna ferð á Skessuhorn í Skarðsheiði í gær.
Vorum þrír undanfarar í reyndari kantinum: Siggi Tommi, Robbi og Hálfdán, allir saman hoknir af reynslu. Gripum með okkur nokkra nýliða 1: Hrafnhildi, Hönnu Kötu, Gulla, Eriku og Írisi. Einnig voru tvær kúluvambar í samfloti með okkur: Björgvin úr Ársæli og Skabbi sem ekki vill láta kenna sig við einhverja olíuheila hjálparsveit. Tveir aðrir kunningjar okkar, Ágúst úr HSG og Skyler frá Kanahernum voru enn fremur nokkrum tímum á undan okkur á Hornið.
Eftir hreint út sagt ótrúlega yndislegt vel rúmlega tveggja tíma þjark eftir hálffrosnum móum Skarðsheiðarsvæðisins komum við að Skessuhorninu. Fórum við hefðbundnu leiðina upp NA-hrygginn, sem er tiltölulega þægilegt 1.-2. gráðu ís- og snjóklifur. Klifrið fór mis vel í menn enda leiðin mjög hressandi “exposed” og veðrir allt frá því að vera rjómablíða yfir í fárviðris hviður sem fleygðu mönnum flötum í haglregni úr öllum áttum. Ferðin upp gekk þokkalega hratt fyrir sig enda allir vel búnir, undir tryggri leiðsögn og klifrið ekki neinum ofviða þrátt fyrir litla reynslu af ístólanotkun.
Af toppnum var gegnið yfir í Katlaklauf og niður gönguleiðina á Skessuhornið. Á leiðinni yfir í Klaufina var ofsarok og haglél og fór svo illa að einn nýliðinn hrasaði og dró með sér næsta mann fyrir ofan á línunni. Kennslan á Fjallamennsku 1 hefur greinilega skilað sínu því stöllurnar náðu að bremsa sig fimlega með ísöxinni á “nó-tæm”.
Ferðin niður gekk annars vel og var nestað í heimsins stærstu snjóhúsum, sem HSSK útbjó sérstaklega handa okkur á námskeiði þessa sömu helgi. Þökkum við þeim kærlega fyrir en bendum á að næst þegar þau verða fengin til verktöku af þessu tagi að hafa gólfflötinn ofan við opið og lofthæðina ívið meiri… 🙂
—————-
Vefslóð: hssr.is/adminimages/myndir.asp?flokkur=155
Texti m. mynd: Gulli, Hanna Kata og Hrafhildur á NA-hryggnum.
Höfundur: Sigurður Tómas Þórisson