Eftirbátar komnir heim.

Á föstudag 27. mars var gengið á fallegum en svölum degi úr Sylgjufelli í Jökulheima í góðu færi. Eitt skíði endaði lífdaga sína um 5 km frá skálanum. Með aðstoð góðra manna voru skíði send úr bænum frá flokksfélaga okkar sem nýttust vel það sem eftir var ferðarinnar. Í Jökulheimum biðu vistir, hangikjet og meðlæti og var vel tekið á því.

Á laugardag var lagt af stað kl. 8 í Veiðivötn, lengsta dagleiðin, um 36 km en spáð var versnandi veðri síðdegis. Eftir um 5 km göngu á Tungnánni gaf sig gormur í skíðabindingu hjá einum félaga sem gekk sem eftir var ferðar með “krabbateygju” bindingu á skíðinu. vonda veðrið skall á um 11 í morgunkaffinu og bara versnaði. Gengið var eftir áttavita og GPS og þurfti að troða og reyndi þetta á úthaldið. Díselvélarnar héldu allar en allir voru ákaflega fegnir að sjá skálana í Veiðivötnum um 18:30 að kveldi. Ekki var síðra að þangað höfðu góðir félagar sent lambakjöt ásamt meðlæti.

Sunnudagurinn var æði fagur í Veiðivötnum, nýfallin föl yfir öllu og bærðist ekki hár á höfði. Lagt af stað um 10, vaðið yfir Fossavatnskvísl með allar byrðar heilu og höldnu. Þær virka ótrúlega þessar díselvélar! Gengið að Vatnsfelli og alveg niður að virkjun því R1 sat fastur í fyrsta skafli! Bílinn fundinn um 18:30 og þá tók við að mokstur og ýting og bílnum komið á flot! Ýmislegt er Eftirbátum fært!! Endað í sveittum hammörum í Hrauneyjum – og postulínssalernin notuð. Komið í bæinn um 23, allir heilir, vel útiteknir og reynslunni ríkari með nokkra auma hæla, ristar og bólgnar tær. Ferð um Bárðargötu er lokið, um 200 km leið.

—————-
Texti m. mynd: Eftirbátar eru engir eftirbátar
Höfundur: Anna María Lind Geirsdóttir