Eftir margrómaða æfingaferð inn í Landmannalaugar í Febrúar var stefnan tekin á þverun Langjökuls.
Við leiðarval var stuðst við jöklasprungukort Landsbjargar, spjall við aðila sem þekkja svæðið, og hvernig best væri að komast að og frá jökli á 38“ breyttum bílum.
Á korti má sjá leiðarval: “Plan A og B”, fylgdum bláu að hábungu og þeirri rauðu niður að Skálpanesi.
Áætlað var að leggja af stað úr bænum á föstudagskvöld og tjalda við rætur jökulsins þá um kvöldið, en vegna mjög slæms veðurs á föstudagskvöld var stefnan sett að Jaka snemma á laugardagsmorgni. Farið var í skíðin ca. 1 km norðan við skálann Jaka og stefnt í suðaustur í átt að náttstað. Gangan gekk vel og allir í góðum gír, færið vel ásættanlegt og sóttist ferðin vel þó flestir væru með púlkur eða snjóþotur í eftirdragi. Skyggni var ágætt til að byrja með en var frekar lítið þegar á leið daginn en birti þó upp síðdegis og blöstu Kerlingarfjöll, Bláfell, Hekla og Jarlhettur við göngumönnum og konum.
Ákveðið var að ganga rösklega til kl. 18 og koma upp tjaldbúðum á þeim tímapunkti. Endaði dagurinn í 25km göngu og allir vel sáttir með gott dagsverk í 1220m hæð yfir sjávarmáli. Slegið var upp búðum og hafist við að bræða snjó til að halda við vatnsbirgðum ,elda matinn og hella uppá kaffi. Gengið var til náða um kl.10 og farið að heyrast hrotur úr nokkrum tjöldum fljótlega eftir það.
Á sunnudeginum var ræs kl. 7 og hafist handa við að elda morgunmat, bræða snjó, taka til tjöld og koma sér í skíðin í fimbulkulda og roki. Ferðin niður að skálpanesi sóttist frekar hægt sökum slæms skyggnis m.a. En allt gekk þetta að lokum og var komið að skálanum við Geldingafell um kl. 15.00 eftir 20km göngu þann daginn.
Myndir: Tomasz Chrapek og Kjartan Long