Það var um 30 manna hópur sem lagði af stað á Snæfellsnesið á föstudagskvöldi, akademísku korteri eftir áætlaðan brottfarartíma. Talsvert var um nýliða í hópnum og margir höfðu aldrei áður gist glæsihíbýlin á Gufuskálum sem mældust mjög vel fyrir.
Á laugardagsmorgni fengu þátttakendur útkall og þustu af stað í leit að tveimur mönnum sem villst höfðu í Purkhólahrauni. Mennirnir fundust illa leiknir í Vatnshelli og lögðust allir á eitt við að koma þeim til aðstoðar og hífa þá upp úr hellinum á börum. Veður var hráslagalegt og blautt og eftir ljúffengan hádegisverð og ýmsar fleiri æfingar seinni part dags var því kærkomið að láta sig malla í heitum potti og fara yfir ævintýri dagsins. Um kvöldið sporðrenndi hópurinn dýrindis nautasteik og súkkulaðibúðingi sem hvort tveggja vakti mikla lukku og var fylgt eftir með æstum spilahasar.
Eftir frágang og morgunverð á sunnudagsmorgni var ekið að Djúpalóni þar sem nokkrir hugrakkir létu reyna á krafta sína. Þaðan var gengið meðfram ströndinni út að Lóndröngum í blíðskaparveðri. Jökullinn skartaði sínu fegursta og horfðu margir löngunaraugum á hann þar sem hann baðaði sig í sólskininu. Á leiðinni heim var komið við í Landbrotslaug þar sem þeir óhreinustu skoluðu af sér eftir vel heppnaða og lærdómsríka helgi.
—————-
Texti m. mynd: Vasklegir björgunarmenn á æfingu
Höfundur: María Gísladóttir