HSSR félagar fjölmenna norður

Í dag barst hjálparsveitum á höfuðborgarsvæðinu aðstoðarbeiðni að norðan, en þar glíma heimamenn við afleiðingar mikils fannfergis þessa dagana. Eitt helsta verkefnið er að aðstoða heimamenn við að finna sauðfé sem er grafið í snjó í þúsundavís og ná því í þessari náttúrulega prísund. Alls fóru 25 félagar austur og höfðu m.a. með sér fimm vélsleða sem munu gagnast vel til þess að ferja björgunarmenn hratt og vel á milli staða.
Óvíst er hve viðamikið þetta verkefni í raun er, en mikilvægt er að hafa hraðar hendur til þess að hægt sé að koma búsmalanum til bjargar til þess að bjarga þeim verðmætum sem í þeim eru fólgin en þó fyrst og fremst til þess að losa hann úr þeirri þjáningu sem sem hann er í.
Félagar í HSSR voru óðfúsir að taka þátt í þessu verkefni, enda hafa allir fylgst vel með fréttaflutningi að norðan. Það er von allra í sveitinni að aðgerðir næstu daga verði gifturíkar og að heimtur á sauðfé verði góðar.

—————-
Texti m. mynd: Flytja þurfti margvíslegan búnað norður
Höfundur: Ólafur Jón Jónsson