Um hádegisbil í gær, 11. júní, barst beiðni frá Neyðarlínu um aðstoð við slasaðan ferðamann á gönguleiðinni að Glym. Félagar HSSR brugðust vel við að vanda og var einn fjögurra manna hópur lagður af stað úr húsi fljótlega eftir að útkallið barst. Ekki var þörf á fleiri hópum frá sveitinni í þessa aðgerð en alls tóku um 20 björgunarsveitarmenn þátt í henni. Aðstæður til böruburðar voru erfiðar og því var þyrlan einnig kölluð til þ.a. tryggt væri að sem best færi um hinn slasaða. Komst hann undir læknishendur síðdegis.
Möguleikar nýja svörunarkerfisins voru virkjaðir í þessu útkalli en einn úr bækistöð hélt utan um mætingar og fjarskipti í fjarvinnslu til hagræðingar fyrir þá sem undirbjuggu brottför úr húsi. Ljóst er að nýja kerfið býður upp á möguleika sem gera undirbúning útkalla enn öruggari og markvissari en hingað til.
—————-
Texti m. mynd: Björgunarmenn og þyrla athafna sig á vettvangi
Höfundur: Þorbjörg Hólmgeirsdóttir