Kolbeinsstaðafjall er eitt af glæsilegri fjöllum á vesturlandi, sem
allt of fáir hafa klifið. Fjallið er í Eyjahreppi og gnæfir yfir
Eldborg og Mýrunum, hátt og með glæsilegum tindum.
Þekktustu tindarnir eru Hrútaborg (862m) og Tröllakirkja (819m).
Gengið verður frá bænum Mýrdal við Heydalsveg, upp Snjódal í áttina
að Hrútaborg og við byrjum á því að taka þann tind. Síðan er haldið
til suðvesturs eftir fjallshryggnum og þar er Tröllakirkja, hár og
fallegur tindur. Gert verur ráð fyrir að gista í tjöldum, snjóhúsum
eða bivuakað einhvers staðar þarna á milli tindanna. Þeir sem ætla
sér að mæta í ferðina þurfa að hafa grunnþekkingu í fjallmennsku.
Broddar, ísöxi, klifurbelti og búnaður til vetrarfjallamennsku er
algjört möst. Þó er ekki um erfitt klifur að ræða, heldur skulum við
kalla þetta létt og skemmtilegt brölt, sem allt sæmilega vant
hjálparsveitarfólk ætti að ráða við. Ef einhverjir hafa áhuga, er svo
hægt að fara erfiðari leiðir á fjallið eins og í klettabeltunum suð-
vestan í því. T.d. er hryggurinn syðst í fjallinu, næst Kaldárdal
mjög ögrandi fyrir góða klifrara.
Þeir sem ætla sér í ferðina hafi samband við Árna Tryggvason. s.
8625364, arnitr@simnet.is.
—————-
Höfundur: Gunnar Kr. Björgvinsson