Stór dagur hjá sveitinni

Það voru ekki einungis alpafararnir okkar sem stóðu í stórræðum um helgina.
Laugardagurinn var þéttpakkaður hjá félögum HSSR. Að venju var sveitin með sjúkragæslu á Reykjavíkurmaraþoni og komu rúmlega 40 manns að gæslunni auk þess sem þónokkrir félagar tóku þátt í hlaupinu. Gæslumenn vakta ákveðin svæði, ferðast um á reiðhjólum og útdeila plástrum, vaselíni og öðrum nauðsynjum auk þess að hvetja þreytta hlaupara til dáða er leið á daginn. Gaman væri að taka saman á næsta ári hvað við hjólum marga kílómetra þennan daginn samanlagt en til dæmis var öðru fjallahjólinu sem leitarhópur HSSR fjárfesti í á dögunum hjólað 68 km. þennan dag, en það er rúmlega eitt og hálft maraþon….
Um kvöldið stóð svo flugeldasýningarhópur HSSR að hinni árlegu flugeldasýningu OR á menningarnótt. Slík sýning er ekki hrist framúr erminni á einum degi, að baki liggur tveggja vikna vinna við að raða saman bombum og tertum, velja og tengja saman réttu effektana og byggja sýninguna upp þannig að hún sé stöðug, þétt og endi með gulli. Silfur er ekki ásættanlegt hjá þessum sýningarhóp – en það er mál manna að vel hafi tekist upp í ár og gullinu verið náð 😉 Sýningin var glæsileg og óskum við sýningarhópnum til hamingju með árangurinn.

—————-
Texti m. mynd: Menningarnótt 2008. Mynd tekin af www.eyjan.is
Höfundur: Gunnar Kr. Björgvinsson