Stóræfing FBSR og nýliðar 2

Fimm fulltrúar frá nýliðum 2 tóku þátt í stóræfingu FBSR sl. laugardag og höfðu mikið gaman af. Hópurinn gaf kost á sér í hvers konar leitarverkefni og þegar degi hallaði hafði hann leyst sex þrautir sem spönnuðu breitt svið. Í fyrstu æfingunni kom hópurinn að unglingi sem hafði fengið slæmt svöðusár á fæti við Mýrargötu, svo vorum við kölluð að Hval 9 þar sem drengur var slasaður eftir sprengingu og eftir það gerðum við leit að ungri, einhverfri stúlku sem þurfti svo að fylgja niður úr krana með viðeigandi tryggingum og öryggisráðstöfunum, einnig við Mýrargötu. Eftir þetta var hópurinn sendur í leit upp í Helgafell í Mosfellsdal þar sem engu mátti muna að þyrla kæmi til að flytja sjúklinginn og deginum lauk svo með vísbendingaleit á Klambratúni og leit að andlega veikum einstaklingi við MH.

Hópurinn var sammála um að sú þekking og þjálfun sem okkur hefur verið látin í té hafi nýst okkur fyllilega, en að sama skapi vorum við sammála um að svona æfingar skerpi á þessum þekkingargrunni. Við þjálfuðumst í að deila út verkefnum, starfa með öðrum, fengum tilfinningu fyrir andanum í útkalli og fleira og fleira. En það sem mest er um vert þá fundum við hvar braut á og á þeim sviðum getum við nú reynt að bæta okkur.

Loks viljum við þakka FBSR fyrir frábæran dag og glæsilega hamborgaraveislu í lokin. Frá okkar sjónarhóli gekk þessi dagur algjörlega snurðulaust og eiga Flubbarnir miklar og góðar þakkir skildar fyrir þessa afmælisgjöf til okkar allra.

—————-
Texti m. mynd: Hópurinn sem tók þátt fyrir hönd N2
Höfundur: Ólafur Jón Jónsson