Ellefu vaskir ferðalangar lögðu upp frá Rjúpnavöllum þann 9. ágúst 2013 til að ganga svokallaða Hellismannaleið, sem ákveðið hafði verið að hafa sem sumarferð HSSR þetta sumarið. Hópurinn var blandaður af fullgildum félögum, nýliðum og gestum.
Fyrsta daginn var gengið meðfram Ytri Rangá að Rangárbotnum, ásamt mjög svo skemmtilegri fossabreiðu þar sem var áð, en síðan yfir sandana að Áfangagili. Þegar farið var að nálgast Áfangagilið var Guðjón trússari sá fyrsti sem við komum auga á þar sem hann lá makindalega í grasinu fyrir ofan gilið og beið okkar (sáum reyndar bara glitta í rauðan depil í grasinu en ályktuðum sem svo að þetta hlyti að vera hann sem síðan reyndist rétt). Áfangagil er skemmtilega lítið og fallegt tjaldstæði í góðu skjóli, ásamt skála þar sem hægt er að gista. Planið var þó að tjalda enda skálinn fullbókaður af ítölskum ferðalöngum, sem voru einu gestirnir á svæðinu fyrir utan tvo franska hjólagarpa sem einnig voru á tjaldstæðinu.
Veðrið lék náttúrulega við okkur, var þurrt og milt þar til allir voru búnir að tjalda, þá byrjaði þessi líka hellidemba en síðan stytti upp meðan við grilluðum (að sjálfsögðu) en byrjaði svo aftur að loknu grilli, enda allir þá á leið í svefn hver í sínu horni, fyrir utan partýtjaldið þar sem ekki var um mörg horn að ræða, heldur bara einn stórt rými þar sem við fimm fullorðin náðum að sofa eða reyndar náðum ekki að sofa. Ályktuðum frá því að sennilega væri svefnplássið miðað við tvo fullorðna og þrjú börn en ekki fimm fullorðna og ákváðum að þessu yrði breytt fyrir næstu nótt.
Næsta dag hófst gangan á fyrstu hækkun ferðarinnar þegar gengið var uppúr Áfangagili, þessi dagur einkenndist af sandagöngu og fallegu umhverfi eins og náttúrulega öll ferðin gerði. Jarðfræðingar ferðarinnar, þau Einar Ragnar og Þorbjörg, fengu að njóta sín með sínum fróðlegu molum um það sem fyrir augu bar, okkur hinum til mikillar ánægju, enda alltaf gaman að fræðast um umhverfið. Þessi dagur var um 20 km í göngu og mjög svo ánægjulegt þegar við fórum að sjá lokamarkmið dagsins, þ.e. Landmannahelli. Þar beið okkar hálendisgæslan með hann Odd í fararbroddi sem hófst þegar handa við að grilla fyrir okkur göngugarpana, get ekki sagt að það hafi verið leiðinlegt. Fengum þessa frábæru máltíð sem samanstóð af grilluðu lambakjöti, kartöflum, salati, sósu, gosi og að sjálfsögðu súkkulaði í dessert. Þessa nóttina var ákveðið að partýtjaldið myndi bara hýsa þau Ben og Ingu, enda tjaldið þeirra, sjálf ákvað ég að sniðugt væri að nota tækifærið og prófa að sofa í bivak sem nýliðaforinginn minn hann Einar Ragnar hafði haft meðferðis svona til öryggis ef hann myndi lenda í klikkuðu veðri, enda alltaf gott að vera við öllu búinn. Mér til mikillar ánægju var mér of heitt um nóttina, hafði frekar reiknað með gagnstæðu þar sem ég er frekar þekkt fyrir að vera alltaf kalt.
Síðasta daginn var 15 km ganga yfir í Landmannalaugar, þennan dag náðum við hæsta punkti ferðarinnar sem var um 830 m, sem var þó ekki nema um 500 m hækkun fyrir okkur. Fengum smá viðbót í hópinn okkar þennan síðasta dag þar sem Íbí og hundurinn hennar hún Tinna bættust í hópinn. Litadýrðin sem einkenndi þennan daginn var náttúrulega ótrúleg, enda Landmannalaugar og svæðið þar um kring með þeim fallegustu á landinu. Leitartækni félaga kom að góðum notum þegar Ben uppgötvaði að hann hafði týnt myndavélinni sinni, að sjálfsögðu fannst hún. Hálendisgæslan sem beið eftir okkur inní Landmannalaugum hafði reyndar búist við okkur aðeins fyrr á svæðið en það bjargaðist allt saman og það voru mjög svo ánægðir göngugarpar sem héldu heim á leið þennan dag eftir mjög svo vel heppnaða ferð.
Takk kærlega fyrir mig, Einar Ragnar og Íbí fyrir að skipuleggja ferðina, Þorbjörg, Edda Guðrún og ég fyrir að redda okkur þessum æðislega mat, Guðjón fyrir að nenna að trússa dótið okkar, algjör lúxus. Ben og Inga fyrir tjaldgistinguna. Og svo þið öll hin fyrir frábæra ferð Guðrún (systir Þorbjargar), Svenni, Jón Pétur (brósi minn), Hilmar og Charlotte, þið eruð æði öllsömul.
Ég kem pottþétt aftur að ári.
Ragga