Nú í maí hafa félagar í HSSR farið í nokkra grunnskóla í Reykjavík og afhent skólunum endurskinsvesti til eignar. Vestin eru ætluð nemendum í fyrsta bekk þegar þau fara í ferðir út fyrir skólalóðina.
Það er Slysavarnafélagið Landsbjörg, í samvinnu við Alcoa Fjarðarál, Dynjanda ehf, EFLA verkfræðistofu, Eflingu stéttafélag, HB Granda, Isavia, Landsvirkjun, Neyðarlínuna, Tryggingamiðstöðina, Umferðarstofu og Þekkingu, sem gefur öllum grunnskólum landsins þessi endurskinsvesti til að nota í vettvangsferðum barna í 1. bekk. Á vestunum kemur fram númer Neyðarlínu, 112, en engar aðrar auglýsingar.
Þema þessa verkefnisins er „Allir öruggir heim“ því öll eigum við rétt á því að koma örugg heim og á það ekki síst við um þau sem eru að hefja skólagöngu sína. Að sjálfsögðu göngum við sem eldri eru á undan með góðu fordæmi og notum ávallt viðeigandi öryggisbúnað.