Tumi Þumall ráðinn af dögum

Undanfaraflokkur HSSR fór í mikla hreystiferð á Þumal í Skaftafellsfjöllum um síðustu helgi.

Fyrir þá sem ekki þekkja þá er um að ræða þumalfingurslaga klettadrangann sem gnæfir yfir Kjósinni norðan Skaftafells.

Sjö sprækir undanfarar og -rennur brunuðu austur í Skaftafell á skutlunni seinni part föstudags. Var strax haldið af stað inn í Morsárdal þar sem slegið var upp tjöldum við lónið eftir um 2 tíma göngu í regni og vosbúð.

Okkur til endalausrar hamingju hafði göngubrúnni við lónið skolað burt í leysingum fyrir margt löngu þannig að við urðum að gjöra svo vel og stinga loppunum í beljandi jökulána og vaða klakavatnið upp í læri og klof. Góð byrjun á deginum það.

Undir Eystra-Meingili var létt á bakpokunum og tjöld, svefnpokar o.fl. geymt meðan haldið var á brattann. Gangan upp Meingilið gekk prýðilega í þéttri þokunni. Í V-Hnútudal vandaðist málið og villtumst við upp á Vesturhnútu en það var bara gaman. Frá henni var svo torratað lengra inn dalinn upp skriðurnar undir Miðfellstindi, sérstaklega þar sem skyggni var ekki nema nokkrir tugir metra. Eftir miklar bollalengingar hafðist það og eftir smá brölt yfir skriður og skafla komum við að rótum Þumals og vorum þá komin skýjum ofar.

Klifrið á Þumalinn sjálfan gekk hægt en örugglega (5 tímar í það heila) enda stór en traustur hópur á ferðinni. Frábært klifur við stórkostlega aðstæður ofan skýjahulunnar – alveg einstakt!

Niðurferðin gekk vel fyrir sig þrátt fyrir að við lentum aftur í þykkri þokunni í 1000m hæð, söðluðum viðlegubúnaðinn í Kjósinni og strunsuðum niður aurana niður í Skaftafell. Komum í bílinn með afar lúin bein kl. 4 um morguninn eftir 18 tíma göngu, ca. 25km áfram og 1000m upp/niður (auk 5-6km kvöldið áður).

Nokkrar myndir er að finna á fésbókarsíðu Granítdvergsins:
http://www.facebook.com/album.php?id=758954621&aid=43424

—————-
Texti m. mynd: Freülein Dr. hvílir lúin bein á Þumli
Höfundur: Sigurður Tómas Þórisson