Upplifun nýliða af Kvöldstund með Undanförum HSSR

“Kvöldstund með undanförum” er það víst kallað. Full rómantískur titill á því sem koma skal. Þá er nefnilega grunlausum nýliðum att á fjallstinda að kvöldi til og skoðuð viðbrögð þeirra og búnaður. Svona sem undirbúningur undir Fjallamennsku 1. Á hssr.is hafði birst um þetta tilkynning með þessari líka fínu ljósmynd úr Dyradal. Spennandi. Þriðjudaginn 4. nóvember gekk á með roki og rigningu á höfuðborgarsvæðinu, heilmiklu roki og enn meiri rigningu – þannig að nýliðar héraðsins hugsuðu allir það sama, þetta yrði sko blautt kvöld. Mæting var á Malarhöfðann klukkan sex, allir bakpokar samviskusamlega viktaðir, engin undanbrögð hvað það varðaði og síðan út í myrkrið, rokið og rigninguna. Fjöldinn var slíkur að til þurfti fimm hópa og okkar hópur skyldi á Hengilinn. Hvorki meira né minna. Þegar komið var út úr bílnum í Dyrafjöllum barði á okkur lárétt rigningin og reyndur undanfarinn sagði að í svona veðri þá yrðu allir blautir, það væri nefnilega ekki enn búið að framleiða föt sem stæðust þetta (sem er náttúrulega allt annað en sölumaðurinn í búðinni sagði). Kort, áttaviti og óendanleg bjartsýni. Settur undir sig hausinn, augun pírð og bitið á jaxlinn, því náttúrulega var stefnan uppí vindinn. Það er alltaf svoleiðis þegar haldið er til fjalla í roki og rigningu. Þrúgandi myrkrið umlukti veikar ljóstýrurnar á alla kanta. Fátt um kennileiti og undanfararnir bara glottandi í kringum ráðvilltan nýliðahópinn. Þetta mjakaðist, en oft þurfti að stoppa til að ráðfæra sig við kort og áttavita. Vindbarin rigningin tók að þrengja sér innum sauma og op og smátt og smátt fannst fyrir kaldri bleytu hér og þar. Ekki dugði að kvarta, það vissu svosem allir, heldur var tekist á við brekkur og klöngur, umlukin myrkri, roki og rigningu. Hver týndur í eigin hugusunum, kannski um tilgang lífsins. Hver veit? Ofar tók að sækja að okkur þoka, komin í ský, og ekki bætti það skyggnið eða rötunina. Svona er nú lífið í nýliðahóp HSSR. Í miðjum hlíðum, eða það höldum við a.m.k., sagði fararstjórinn að nóg væri komið, að tilgangi ferðarinnar væri náð. Toppurinn sjálfur var ekkert markmið, sérstaklega í svona veðri, heldur hitt að fá fólk út og prófa búnaðinn. Besta setning kvöldsins, ekki nokkur spurning! Var því snúið við og tölt til baka. Var ólíkt þægilegra að hafa bæði brekkuna og veðrið í bakið. En það gutlaði í skónum. Báðum. Hundblautur! Sölumaðurinn hafði sko ekki sagt satt. Já, þau eru óvenjuleg þessi partý sem undanfararnir bjóða nýliðunum að sækja….. og myndin úr Dyradal var ekki í neinum tengslum við þann raunveruleika sem undanfarar buðu okkur uppá á þeim sama stað þriðjudagskvöldið 4. nóvember.

—————-
Texti m. mynd: Það er rigning og myrkur og ………….
Höfundur: Hlynur Skagfjörð Pálsson