Vinir HSSR, stofnfundur

Stjórn Hjálparsveitar skáta í Reykjavík
boðar til fundar miðvikudaginn 17. sept. n.k. kl 20:00,
sem haldinn verður í húsnæði sveitarinnar að Malarhöfða 6.

Tilefni fundarins er stofnun:

Vina HSSR
(Hollvinasamtaka Hjálparsveitar skáta í Reykjavík)

Vorið 2013 ákvað stjórn HSSR að hefja vinnu sem miðaði að því að ná saman á einn stað nöfnum sem flestra aðila sem einhvern tíma hafa starfað innan vébanda HSSR.

Stjórn sveitarinnar vill með þessu endurnýja sambandið við gamla félaga sveitarinnar og stuðla að endurnýjuðum kynnum þeirra með það að markmiði að úr geti orðið einhverskonar samtök eða hópur eldri félaga sem getur stutt við starfsemi HSSR með margvíslegu móti.

Til að koma þessari vinnu af stað voru fengnir þrír ‘gamlir’ félagar HSSR, þeir Benedikt Þ. Gröndal, Laufey Gissurardóttir og Eggert Lárusson, sem ásamt ýmsum öðrum félögum HSSR hafa unnið að undirbúningi málsins.

Undirbúningsnefndin hefur unnið talsvert starf við að afla upplýsinga í eldri félagaskrám sveitarinnar. Nú er búið að ná saman milli 600-700 nöfnum eldri félaga. Þar af er um helmingur þeirra enn skráður á félagalista HSSR. Stefnt er að því að ná til sem flestra eins og kostur er.

Fyrst um sinn hefur verið miðað við að ná til þeirra sem hafa undirritað eiðstaf sveitarinnar, en sá siður hefur verið viðhafður frá árinu 1966.

Fyrir þann tíma eða milli 1962 þegar sveitin var endurreist og 1966 voru m.a. svokallaðir boðunarflokkar hinna 8 deilda Skátafélags Reykjavíkur. En ýmsir sem þar störfuðu undirrituðu eiðstafinn eftir 1966, en aðrir gerðu það ekki af ýmsum ástæðum. Hugmyndin er að ná til þessa hóps síðar, sem og þeirra sem störfuðu í sveitinni fyrir 1962.

Stefnt er að því að samtökin verði málefnamiðuð sem taki að sér ýmiskonar vinnu við málefni sem hinir starfandi félagar eru ekki að sinna, en koma starfsemi HSSR til góða.

Stjórn HSSR skipar samtökunum stjórn fyrsta starfsárið, en síðan verður kosin stjórn á næsta aðalfundi samtakanna. Stjórnin verði ábyrg gagnvart stjórn HSSR og gefur henni stutta skýrslu um starfsemi samtakanna í lok hvers starfsárs.

Undirbúningshópurinn telur, að það sé líklegt til árangurs að stofnaðir verði vinnuhópar eða flokkar um hvert málefni og að hver hópur velji sér talsmann eða foringja. Heppilegur fjöldi í hverjum hóp er 5-8 félagar. Talsmenn/foringjar hvers verkefnishóps gefa stjórn hollvinasamtakanna skýrslu í lok árs.

Undirbúningshópurinn telur áríðandi að halda væntanlegri starfsemi eins einfaldri og mögulegt er, en fyrst og fremst að hafa gaman af og reyna eftir megni að endurupplifa ‘ævintýrið’ að vera félagi í hjáparsveit og gera í leiðinni ‘gömlu sveitinni’ sinni eitthvert gagn.

Undirbúningshópurinn telur að það séu í raun fá takmörk fyrir því hverskonar verkefni eða málefni svona samtök gætu unnið að, svo fremi að þau styrki starfsemi HSSR og þá um leið þjóðfélagsins alls.

Það er ekki ætlunin að samtökin hlutist í mál og verk sem starfandi félagar sinna. Þó eingöngu ef stjórn sveitarinnar eða tilteknir hópar innan HSSR óska eftir aðstoð samtakanna við tiltekin mál.

Meðal þeirra mála sem samtökin gætu unnið að er t.d.:

  • Viðhald húsnæðis, lóðar eða eigna HSSR.
  • Skrásetning sögu HSSR og æviatriða einstaklinga tengdum HSSR.
  • Minjasöfnun, varsla og skrásetning muna HSSR.
  • Söfnun og skrásetning mynda úr starfi HSSR.
  • Undirbúningur og umsjón fræðslufunda um málefni HSSR fyrir ‘Vini HSSR’.
  • Öflun nýrra styrktaraðila fyrir HSSR.
  • Umsjón með fræðslu- og skemmtiferðum fyrir ‘Vini HSSR’.
  • Þátttaka í ýmsum fjáröflunum fyrir HSSR.
  • Undirbúningur og umsjón með t.d. reglulegu kaffi eða ‘brunch’ fyrir eldri félaga.
  • Önnur málefni sem tengjast starfi HSSR.

Stjórn Hjálparsveitar skáta í Reykjavík bíður alla eldri félaga sveitarinnar velkomna á fundinum, og vonar að þeir geti átt gott samstarf með gömlum og nýjum félögum innan HSSR, en á fundinum verður boðið upp á veitingar.