Vorferð Bíló á Vatnajökul

Bílaflokkur fór í síðustu viku á Vatnajökul. Lagt var af stað stundvíslega í kringum átta leitið á miðvikudagskvöldið. Keyrt var rakleiðis austur í Kálfafellsdal en þar var gist við lítinn læk í fögru landslagi. Eftir væran svefn á mosabakka var náð í göngumenn úr A1 sem fóru með Ásnum austur. Keyrðum við göngufólkið austur að Hoffelli en þar héldu þeir á jökul. Við fórum því næst upp á Vatnajökul upp frá Jöklaseli. Fórum við rakleiðis að Hveragili í Kverkfjöllum og hituðum þar pylsur í heitum læk og fórum í gott steypibað í fossi nokkrum sem er þar í heitum læknum. Um kvöldið voru grillaðaðr kódelettur og tjaldað í friðsælum fjallasal. – Ekki var mikill friðurinn þegar leið á en vegna roks voru flestir komnir inn í bíla um miðja nótt og svefn því ekki mikill þá nóttina. Daginn eftir var lagt af stað í Kverkfjöll og Gengissigið skoðað meðal annars. Því næst var farið að Grímsfjalli en þangað var mjög þungfært og endaði för okkar þar í miðri brekkunni fyrir neðan skálan vegna ófærðar og tíma sem hljóp hratt í burtu. Við snérum frá fjallinu en keyrðum austur að Jöklaseli og gistum þar í brekkunum fyrir neðan eftir að hafa grillað góðan mat. Á laugardag fórum við svo upp að Goðahnjúkum, hittum þar á leiðinni Beltó menn en þeir voru á leið sinni að Humarkló. Við fórum að Goðahnjúkum, keyrðum svo niður að jökulbrún á leið í Snæfell. Þaðan var svo haldið að Humarkló og slóumst við þar í för Beltó manna. Grilluðum við þar læri í holu en lítill tími gafst til að borða það því að tækjahópurinn var að undirbúa leitaraðgerð sem við fórum svo í um nóttina. Nóttin fór öll í leit og í morgunsárið á sunnudag vorum við komin aftur og drógum þá ferðafólkið sem Beltó var með upp frá Humarkló og niður að Jöklaseli. – Ferðin var í heild sinni alveg frábær og farið var mjög víða í frábæru veðri (oftast). –
Þakka ferðafélögum (Bíló og Beltó) fyrir frábæra ferð.

—————-
Texti m. mynd: Reykur 2 og Reykur 3 á Vatnajökli
Höfundur: Marteinn S. Sigurðsson