Þriðjudagskvöldið 13. febrúar var svokallað póstakvöld á Malarhöfðanum.
Dagskráin var fjölbreytt og skemmtileg og stemmningin mögnuð. Kvöldið byrjaði með hvelli, ungstirnið Róbert var með sýnikennslu í notkun línubyssu. Atriðið vakti þónokkuð mikla lukku.
Í kjölfarið á þessu sýndu svo undanfararnir Árni og Hálfdán hvernig hægt er að draga Patroljeppa með annarri hendi. Aðferð sem gott er að kunna í þungu færi á jökli þegar Boli er ekki nálægur til að redda hlutunum, en svona línudobblanir kváðu einnig virka vel í félagabjörgun.
Maddi var svo næstur með fróðlega kynningu tölvutækum kortum, kortaforritinu Ozi explorer, möguleikum þess við undirbúning ferða, skráningu punkta og ferla og fleira.
Að lokum fór Ragnar, fyrir hönd plástraprinsessana, yfir vinnuferlið við undirbúning sjúklings fyrir flutning, sjúklingur settur á bakbretti og börur.
Almenn ánægja var með kvöldið og var það hógvært mat þátttakenda að þarna færu snillingar, hver á sínu sviði.
—————-
Texti m. mynd: Robbi sýnir hvernig á EKKI að halda á línubyssu
Höfundur: Gunnar Kr. Björgvinsson