Undanrennufarar viðra sig

Undanrennur buðu Undanförum til fjalla um helgina. Upphaflegt plan var að fara í Tindfjöllin og ganga þar eða brölta á vel valda tinda. Eins og fyrri daginn hugnaðist veðrinu ekki þau plön og hvorki sunnudagur né föstudagskvöld voru vænleg til ferðalaga. Úr varð að nota laugardaginn til hins ýtrasta og viðra gönguskíðin.

Að lokum enduðum við á Þingvöllum og gengum þar áleiðis í átt að Botnssúlunum. Víða var lítill snjór á melum en í lægðum var allt á kafi í snjó. Í bjartsýniskasti í góða veðrinu var í einu snarhasti kannað hvort einhver væri til í að sækja okkur í Botnsdal en Hlynur og Ævar redduðu því án þess að tvínóna. Þá var sett á fullt stím og að Botnsdal komumst við þegar myrkrið var að skella á og það var að byrja að blása aftur. Það var dúnamjúkur snjór niður síðustu brekkurnar í skóginum og ánægðir en dasaðir skíðamenn sem loks komumst yfir marklínuna.

—————-
Texti m. mynd: Bein stefna á Búrfell
Höfundur: Hálfdán Ágústsson