Flughálka frá Sámsstaðamúla, keðjubarningur, skafrenningur og skítviðri, blautir fætur og svefnleysi. Er þetta ekki æðislegt líf, æfingaferðir eru jú til að æfa basl. Rétt um 20 manns tóku þátt í sameiginlegri tækjahópaferð HSSR á fjallabak um síðustu helgi. Í för voru níu vélsleðar, tvö beltuð fjórhjól, tveir 44" jeppar, snjóbíllinn Boli ásamt Reyk 1 og Reyk 6 sem fluttu leiðangursmenn og tæki að Hrauneyjafossvirkjun. Upp úr miðnætti var lagt í hann frá Hrauneyjafossi og var sleðahópurinn kominn í Glaðheima um kl. 02.00. Jeppar, snjóbíll og fjórhjólin (sem minna óneitanlega á vélmennið Wallee á beltunum) fylgdust að mestu að inn að Kýlingaskarði. Veður var heldur skítt framanaf en við Bjallavað var vindur dottinn niður og komin jólalogndrífa. Þá voru einnig tveir snjóbílaleiðbeinendur á sleðum með síðari hópnum. Til að gera langa sögu stutta komust sex menn á þremur sleðum í hús í Glaðheimum um kl. 06.00 eftir "illviðráðanlega töf" á ósnum undir Byggðalínunni. Boli og jeppar komu svo á áfangastað um hádegi. Veður hafði þá verið mjög fúlt frá birtingu og sleðamenn flestir unndu sér hið besta sem "kojukrummar" í Glaðheimum. Upp úr kl. 15 var haldið út á ós að ná í fjórhjólin og sleðann sem þar var skilinn eftir um nóttina. Þó merkilegt sé var kvöldverður snæddur á ásættanlegum tíma og að honum loknum renndu þeir "útsofnustu" í bað í Landmannalaugum.
Sunnudagurinn heilsaði með 13 stiga frosti og stillu. Frábært fjallaveður. Allt í gang, ekkert hik, nema á krapaföstum jeppum. Lífið er of stutt til að ferðast á jeppa sagði einhver. Sleðamenn fóru upp á fjöll og yfir fjöll í æðislegu veðri og færi og svo niður í jökulgilið í Landmannalaugar. Ekki veit ég afhverju einn félaginn vildi endilega baða sig þar aftur og nú upp úr köldu, en björgunarsveitarmenn eru bara svo skrítnir. Þegar flestir voru komnir á lokastefnu heim kom svo lokaæfingin, hún var reyndar alvöru. Vélsleðamaður á ferð með þremur félögum sínum hafði ekið fram af bröttum bakka og fallið um 15 metra niður í gilbotn. Sleðamenn okkar voru komnir á staðinn 10-15 mínútum eftir að Neyðarlína hafði kallað okkur upp og Boli um 15 mín þar á eftir. Sem betur fer var ekki lífshættulegt ástand á sjúklingnum en honum var pakkað í ked og kraga, settur á bretti og í börur og ekið í sjúkrabílnum Bola upp á nærliggjandi hól. Skömmu síðar kom þyrlan GNA á svæðið, setti út lækni sem kannaði ástand sjúklinsins sem síðan var fluttur yfir.
Á endanum komum við allir heim en heldur var orðið áliðið. Takk fyrir frábæra helgi, blautir sokkar eru bestir.
Myndir væntanlegar á myndasíðu innan skamms.
Hlynur Sk.
—————-
Texti m. mynd: TF-GNA nálgast Bola.
Höfundur: Hlynur Skagfjörð Pálsson