Ferðir og útköll síðustu daga.

Síðastliðinn fimmtudag hélt snjóbíllinn Boli með fimm manna áhöfn á Vatnajökul og var tilgangurinn tvíþættur: Annarsvegar sá að flytja eldsneyti fyrir HSSR og LV á Grímsfjall vegna vetrarákomumælinga og vorjöklaferða HSSR. Hinsvegar að aðstoða vísindamenn við leit að mælitækjum í Eystri-Skaftárkatli en mælistöðin týndist í hlaupi undan katlinum sl. haust. Gekk leiðangur þessi vel að öðru leiti en því að engin fundust mælitækin.

Á föstudagskvöld héldu jeppar sveitarinnar ásamt einum Sporabíl til fjalla, gistu í Jökulheimum eftir ferð í afar slæmu veðri og sameinuðust svo jöklafólki á laugardag.

Á föstudagskvöld héldu sleðamenn einnig til fjalla en hrepptu enn verra veður en jeppamenn og tóku, sem góðum ferðamönnum sæmir, þá ákvörðun að snúa heim áður en tækjatjón og frekara vesen hlytist af. Kapparnir héldu ótrauðir af stað aftur á laugardagsmorgun og náðu góðum æfingatúr sunnan Langjökuls það sem eftir var helgar.

Ófærðaraðstoð á Hellisheiði hefur verið minnst á áður hér á síðunni og einnig helgarferð nýliðanna okkar.

Í nótt um kl. 04.00 voru sérhæfir leitarhópar á höfuðborgarsvæðinu svo kallaðir út til leitar að konu í Grafarholti en hún fannst heil á húsi undir kl. 05.00

—————-
Texti m. mynd: Ýtt og segulmælt á Vatnajökli.
Höfundur: Hlynur Skagfjörð Pálsson