Helgina 11.-13. september verður farið í hjólaferð á vegum HSSR. Þetta eru alltaf skemmtilegar ferðir sem engin ætti að láta fram hjá sér fara. Um trússferð er að ræða. Þátttakendur skulu vera mættir á Malarhöfðann eigi síður en klukkan 18:00 og brottför verður um leið og búið verður að koma hjólum og öðrum farangri fyrir. Við reiknum með því að fá okkur eitthvað í svanginn á leiðinni. Gist verður í Svínárnesi sem stendur á bökkum Hvítár, til móts við Bláfell. Á laugardagsmorguninn ökum við áleiðs upp eftir Klakksleið en hefjum hjólreiðarnar þegar komið er að slóð sem liggur til suðurs að upptökum Stórulaxár og svo niður með henni. Ferðinni er heitið í Helgaskála en þessi hjólaleið er um það bil 50km. Á sunnudeginum ætlum við að þræða slóða og götur sem liggja niður með hrikalegu glúfri Stóru-Laxár að vestanverðu, allt niður að bænum Kaldbaki, alls 25 km leið. Ég vil benda á flottar myndir af gljúfrinu á http://photo.blog.is/blog/photo/entry/270966/. Heimkoma er áætluð rétt fyrir kvöldmat sunnudaginn 13. september. Ferðin ætti að vera við hæfi allra sem eru í meðalslöku formi og eiga sæmilegt hjól. Rándýr tryllitæki eru engin nauðsyn. Æskileg er að þátttakendur viðri hjólið og sjálfan sig nokkrum sinnum áður en lagt er í hann, bæði til að tryggja að hjólið sé í sæmilegu ástandi og til að venja sitjandann við. Hjálmar eru auðvitað skylda. Skráning fer fram með því að senda póst á netfangið eythororn@gmail.com en henni lýkur 9. september næstkomandi. Hins vegar er gagnlegt að vita af áhuga þeirra sem hyggja á þátttöku sem fyrst. Einnig er skemmtilegt ef þáttakendur gera vart við sig á þar til gerðum spjallþræði á korkinum. Fyrirspurnir skal senda á ofangreint netfang.
—————-
Texti m. mynd: Andrjes Guðmundsson við Kerlingarfoss í Kerlingará
Höfundur: Eyþór Örn Jónsson