Hjólaferð 11.-13. september

Helgina 11.-13. september verður farið í hjólaferð á vegum HSSR. Þetta eru alltaf skemmtilegar ferðir sem engin ætti að láta fram hjá sér fara. Um trússferð er að ræða. Þátttakendur skulu vera mættir á Malarhöfðann eigi síður en klukkan 18:00 og brottför verður um leið og búið verður að koma hjólum og öðrum farangri fyrir. Við reiknum með því að fá okkur eitthvað í svanginn á leiðinni. Gist verður í Svínárnesi sem stendur á bökkum Hvítár, til móts við Bláfell. Á laugardagsmorguninn ökum við áleiðs upp eftir Klakksleið en hefjum hjólreiðarnar þegar komið er að slóð sem liggur til suðurs að upptökum Stórulaxár og svo niður með henni. Ferðinni er heitið í Helgaskála en þessi hjólaleið er um það bil 50km. Á sunnudeginum ætlum við að þræða slóða og götur sem liggja niður með hrikalegu glúfri Stóru-Laxár að vestanverðu, allt niður að bænum Kaldbaki, alls 25 km leið. Ég vil benda á flottar myndir af gljúfrinu á http://photo.blog.is/blog/photo/entry/270966/. Heimkoma er áætluð rétt fyrir kvöldmat sunnudaginn 13. september. Ferðin ætti að vera við hæfi allra sem eru í meðalslöku formi og eiga sæmilegt hjól. Rándýr tryllitæki eru engin nauðsyn. Æskileg er að þátttakendur viðri hjólið og sjálfan sig nokkrum sinnum áður en lagt er í hann, bæði til að tryggja að hjólið sé í sæmilegu ástandi og til að venja sitjandann við. Hjálmar eru auðvitað skylda. Skráning fer fram með því að senda póst á netfangið eythororn@gmail.com en henni lýkur 9. september næstkomandi. Hins vegar er gagnlegt að vita af áhuga þeirra sem hyggja á þátttöku sem fyrst. Einnig er skemmtilegt ef þáttakendur gera vart við sig á þar til gerðum spjallþræði á korkinum. Fyrirspurnir skal senda á ofangreint netfang.

—————-
Texti m. mynd: Andrjes Guðmundsson við Kerlingarfoss í Kerlingará
Höfundur: Eyþór Örn Jónsson

Hjólaferð 11.-13. september

Helgina 11.-13. september verður farið í hjólaferð á vegum HSSR. Þetta eru alltaf skemmtilegar ferðir sem engin ætti að láta fram hjá sér fara. Ekki hefur verið tekin endanleg ákvörðun um hvert ferðinni er heitið en nánari upplýsingar um áfangastað og ferðatilhögun berst á næstu dögum. Hins vegar er ljóst að brottför verður undir kvöldmat á föstudeginum en komið verður til baka um svipað leyti á sunnudeginum. Yfirgnæfandi líkur eru til þess að gist verði í skálum. Ég reikna með því að við munum hjóla uþb 50-60 km á laugardeginum en heldur styttra á sunnudeginum.
Vonandi sjá sem flestir sér fært að koma með. Hingað til hefur dugað ágætlega að vera í meðalslöku formi til að hafa þessar ferðir af. Hins vegar mæli ég með því að þeir sem hyggja á þátttöku viðri hjólið og sjálfan sig nokkrum sinnum áður en lagt er í hann, bæði til að tryggja að hjólið sé í sæmilegu ástandi og til að venja sitjandann við.

Nánari upplýsingar um ferðatilhögun og skráningu berast á næstunni.

—————-
Texti m. mynd: Stefán Páll veður yfir Kísu
Höfundur: Eyþór Örn Jónsson