Þriðjudaginn 6. september verður dagskrá nýliðaþjálfunar hjá HSSR kynnt í máli og myndum í húsnæðis sveitarinnar að Malarhöfða 6. Farið verður yfir þær kröfur sem gerðar eru til þátttakenda sem og þann búnað sem nýliðar þurfa að hafa tiltækan.
Með því að taka þátt í nýliðaþjálfun ert þú að gefa kost á þér í sjálfboðaliðastarfi næstu árin sem felur meðal annars í sér þátttöku í útköllum á fjöllum og láglendi. Í staðinn færðu ómetanlega reynslu, tekur þátt í góðum félagsskap og lætur gott af þér leiða.
Í stuttu máli: Þjálfun nýliða spannar 18 mánaða tímabil þar sem boðið er upp á námskeið í allri þeirri hæfni sem björgunarfólk þarf að búa yfir. Kennslan er bæði bókleg og verkleg og mörg námskeiðanna spanna heilar helgar. Inn í þjálfunina er fléttað lengri og styttri gönguferðum þar sem reynir á þátttakendur í margvíslegum kringumstæðum. Að þjálfunartíma afloknum útskrifast þátttakendur sem fullgildir björgunarmenn og fara þá á útkallsskrá HSSR.
Á þjálfunartíma taka nýliðar fullan þátt í fjáröflunarstarfi sveitarinnar sem er samsett úr fjölmörgum viðburðum á tímabilinu.
Stofnaður hefur verið viðburður á Facebook til kynningar á fundinum. Athugið að skráning í þennan viðburð er ekki skilyrði fyrir mætingu, allir eru velkomnir á fundinn. Vinsamlega áframsendið þetta fundarboð á áhugasama einstaklinga.
Aldurstakmark er 18 ár.