Author Archives: Ólafur Jón Jónsson

Gleðilegt nýtt ár og þakkir fyrir það gamla

Áramótakveðja HSSR 2017

Félagar í Hjálparsveit skáta í Reykjavík óska landsmönnum öllum gleðilegs nýs árs og þakka heilshugar viðkynnin á árinu sem er að líða. Við óskum þess að nýtt ár verði öllum heillaríkt og happadrjúgt og að allir geti upplifað nýja hluti í nýjum kringumstæðum og komið heilir heim.

Förum varlega, verum örugg!

Flugeldasala hjá Hjálparsveit skáta í Reykjavík

Flugeldar 2017

Nú er komið að einum skemmtilegasta tíma ársins þegar við kveðjum það sem er að líða og fögnum því nýja með því að skjóta upp flugeldum eins og Íslendingum einum er lagið. Í ár verðum við með sölustaði á átta mismunandi stöðum:

  • Malarhöfða
  • Spönginni
  • Egilshöll
  • Grafarholti
  • Hraunbæ
  • Fylkis-stúkunni
  • Bílabúð Benna
  • Skjöldungum, Sólheimum 21a

Opnunartíminn er aðeins misjafn eftir stöðum, en þú getur kynnt þér það nánar hér.

Komdu og líttu á úrvalið, þitt framlag skiptir máli!

Góðir gestir frá Þýskalandi í heimsókn

Ársæll og THW Jugend frá BocholtVinir okkar í Ársæli komu í heimsókn í dag og höfðu með sér góða gesti frá bænum Bocholt í Þýskalandi. Þetta eru félagar í ungliðastarfi THW í sem voru að endurgjalda heimsókn Ársælinga til þeirra í fyrra. Þeir fengu sýniferð um aðstöðu HSSR og stutt ágrip af sögu sveitarinnar.

THW var sett á laggirnar árið 1950 og hefur þrifist og dafnað vel allar götur síðan. Þetta eru ríkisstyrkt samtök 80 þúsund sjálfboðaliða sem veita opinberum viðbragðsaðilum margvíslega aðstoð. Ungliðahlutinn er þróttmikill og gefur hann ungu fólki tækifæri á að takast á við fjölbreytt verkefni og gefa til samfélagsins.

HSSR þakkar kærlega fyrir heimsóknina og óskar gestunum góðrar skemmtunar í rigningarblíðviðrinu sem heilsaði þeim á höfuðborgarsvæðinu.

Nýliðaþjálfun 2016-18

Þriðjudaginn 6. september verður dagskrá nýliðaþjálfunar hjá HSSR kynnt í máli og myndum í húsnæðis sveitarinnar að Malarhöfða 6. Farið verður yfir þær kröfur sem gerðar eru til þátttakenda sem og þann búnað sem nýliðar þurfa að hafa tiltækan.

Með því að taka þátt í nýliðaþjálfun ert þú að gefa kost á þér í sjálfboðaliðastarfi næstu árin sem felur meðal annars í sér þátttöku í útköllum á fjöllum og láglendi. Í staðinn færðu ómetanlega reynslu, tekur þátt í góðum félagsskap og lætur gott af þér leiða.

Nýliðar 2014 á leitaræfingu

Í stuttu máli: Þjálfun nýliða spannar 18 mánaða tímabil þar sem boðið er upp á námskeið í allri þeirri hæfni sem björgunarfólk þarf að búa yfir. Kennslan er bæði bókleg og verkleg og mörg námskeiðanna spanna heilar helgar. Inn í þjálfunina er fléttað lengri og styttri gönguferðum þar sem reynir á þátttakendur í margvíslegum kringumstæðum. Að þjálfunartíma afloknum útskrifast þátttakendur sem fullgildir björgunarmenn og fara þá á útkallsskrá HSSR.

Á þjálfunartíma taka nýliðar fullan þátt í fjáröflunarstarfi sveitarinnar sem er samsett úr fjölmörgum viðburðum á tímabilinu.

Stofnaður hefur verið viðburður á Facebook til kynningar á fundinum. Athugið að skráning í þennan viðburð er ekki skilyrði fyrir mætingu, allir eru velkomnir á fundinn. Vinsamlega áframsendið þetta fundarboð á áhugasama einstaklinga.

Aldurstakmark er 18 ár.

Grafarvogsdagurinn 2016

Nokkrir hressir félagar í sveitinni tóku á dögunum þátt í Grafarvegsdeginum með því að bjóða gestum og gangandi upp á að spreyta sig í klifurvegg. Skemmst er frá því að segja að þetta mæltist vel fyrir og var stöðug aðsókn allan tímann. Grafarvogsbúar standa þannig augljóslega með hjálparsveitinni sinni í starfi og leik.

Við þökkum kærlega fyrir okkur, sjáumst aftur að ári.

Sveitarfundur HSSR

Sveitarfundur HSSR

Sveitarfundur Hjálparsveitar skáta í Reykjavík verður haldinn þriðjudaginn 15. mars nk. á milli kl. 19-22 að Malarhöfða 6, 110 Reykjavík. Úrvals góð íslensk kjötsúpa verður á boðstólum á milli kl. 18:30 og 19. Eru félagar því hvattir til að mæta ögn fyrr og njóta góðra veitinga.

Dagskrá
Skýrsla sveitarforingja
Skýrsla gjaldkera
Fullgilding nýrra félaga
– Kaffihlé
Yfirlit yfir virkni
Kynning á tillögum að lagabreytingum
Kynning á bílamálum
Önnur mál

Flugeldasölustaðir HSSR

Sölustaðir Hjálparsveitar skáta í Reykjavík eru víða:

  • Malarhöfða 6
  • Bílabúð Benna, Vagnhöfða 23
  • Grjótháls 5 (við Össur)
  • Hraunbæ 123 (við Skátamiðstöðina)
  • Vínlandsleið í Grafarholti (við Húsasmiðjuna)
  • Spöngin
  • Skátafélagið Skjöldungar, Sólheimum 21a

Staðirnir eru opnir á milli kl. 10-22 nema á gamlársdag, en þá er lokað kl. 16.

Sölustaðir flugelda HSSR 2015

Sveitarfundur

Stjórn Hjálparsveitar skáta í Reykjavík boðar til almenns sveitarfundar þriðjudagskvöldið 29. september kl. 20.00 í húsnæði sveitarinnar að Malarhöfða 6.

Dagskrá

  • Sveitarforingi skipar fundarstjóra og fundarritara.
  • Inntaka nýrra félaga.
  • Skýrsla um starfsemi sveitarinnar frá síðasta reglulega sveitarfundi.
  • Starfsáætlun vetrarins.
  • Kaffihlé.
  • Önnur mál.
  • a. Nokkur orð frá sveitarforingja (nýliðun, markaðsmál, fjáröflun, upplýsingatækninefnd, árshátíð, uppstillingarmál o.fl.).
  • b. Kynning frá bækistöðvarhópi og útkallsmál.
  • c. Dagskrármál.
  • d. Breytingar á sjúkrahópi.
  • e. Kynning á skýrslu tækjakostsnefndar.
  • f. Enn önnur mál.

Rétt er að benda á að hugsanlegar lagabreytingar á aðalfundi þarf að kynna á þessum fundi.

Kynning á þjálfun nýliða 2015-17

Nýliðar 2014 á leitaræfingu

Dagskrá nýliðaþjálfunar hjá HSSR verður kynnt í máli og myndum þriðjudaginn 1. september kl. 20-22 að Malarhöfða 6. Dagskráin er þannig að þjálfunin í heild sinni verður kynnt, farið verður yfir þær kröfur sem gerðar eru til þátttakenda sem og þann búnað sem nýliðar þurfa að hafa tiltækan á meðan þjálfun stendur. Áhugasamir geta skráð sig í þennan viðburð á Facebook, en það er þó ekki nauðsynlegt.

Með því að taka þátt í nýliðaþjálfun ert þú að gefa kost á þér í sjálfboðaliðastarfi næstu árin sem felur meðal annars í sér þátttöku í útköllum á fjöllum og láglendi. Í staðinn færðu ómetanlega reynslu, tekur þátt í góðum félagsskap og lætur gott af þér leiða.

Í stuttu máli: Þjálfun nýliða spannar 18 mánaða tímabil þar sem boðið er upp á námskeið í allri þeirri hæfni sem björgunarfólk þarf að búa yfir. Kennslan er bæði bókleg og verkleg og mörg námskeiðanna spanna heilar helgar. Inn í þjálfunina er fléttað lengri og styttri gönguferðum þar sem reynir á þátttakendur í margvíslegum kringumstæðum. Að þjálfunartíma afloknum útskrifast þátttakendur sem fullgildir björgunarmenn og fara þá á útkallsskrá HSSR.

Á þjálfunartíma taka nýliðar fullan þátt í fjáröflunarstarfi sveitarinnar sem samsett er úr fjölmörgum viðburðum á tímabilinu.

Aldurstakmark er 18 ár.

HSSR á hálendinu í ágúst

Í ágúst munu ellefu félagar úr sveitinni standa hálendisvakt á Sprengisandi og á svæðinu norðan Vatnajökuls. Verkefnin felast í ráðgjöf til ferðafólks og aðstoð ef einhver lendir í vandræðum. Áherslan er alltaf á góða ráðgjöf til þess að koma í veg fyrir óhöpp og hefur árangurinn af því starfi verið að sýna sig æ betur á undanförnum árum.

Hjálparsveit skáta í Reykjavík hefur sent hópa í 1-2 vaktir undanfarin ár og væntanlega verður ekkert lát á í framtíðinni. Góður árangur af rekstri hálendisvaktarinnar er ótvíræður og svo er þessi vikuvist góð þjálfun félagana í kringumstæðum sem sveitir af höfuðborgarsvæðinu komast sjaldan í tæri við í starfi sínu.

Ferðafólk er hvatt til þess að leita sér upplýsinga á vefjum Vegagerðar og Veðurstofu áður en lagt er í ferðalög. Þá er hægt að sækja margvísleg hollráð á vef Safetravel. Að lokum er minnt á að ávallt er hægt að hnippa í björgunarfólk þegar á hálendið er komið og fá góð ráð um ástand vega.

Á myndinni má sjá aðfarirnar við matseld í Drekagili árið 2014.

halendisvakt-2014